Þórarinn Jónsson 15.09.1873-21.01.1941

<p>Þórarinn Jónsson var fæddur á Háreksstöðum í Jökuldalsheiði 15. september 1873. Foreldrar hans voru Jón Benjamínsson, bóndi þar, og fyrri kona hans Guðrún Jónsdóttir. Voru þær Vilborg móðir Gunnsteins Eyjólfssonar og Guðrún alsystur. Þórarinn ólst upp í föðurhúsum og naut eigi annarar mentunar en þar var fáanleg og lögskyld var til fermingar. Hugur hans hneigðist snemma til söngs, og hafði hann í æsku fagra söngrödd, en lagði litla rækt við hana síðar. Innan við tvítugs aldurs fékk hann sér stofuorgel, og var fyrsti kennari hans Kand. Vigfús Þórðarson, síðar prestur í Eydölum, og tileinkar Þórarinn honum eitt lagið í einu af söngheftum sínum. Síðar naut hann tilsagnar hjá Magnúsi Einarssyni á Akureyri og Brynjólfi Þorlákssyni í Reykjavík.</p> <p>Sumarið 1903 flutti Þórarinn vestur um haf og átti heima í Winnipeg í næstu 20 ár. Rak hann þar ýmist matvöruverslun eða rakara og hárskurðarstofu. Í mörg ár lék hann á orgelið í Unítarakirkjunni og stjórnaði þar kirkjusöng. Vorið 1923 fór hann vestur að Kyrrahafi og bjó lengst um í Seattle, Wash., næstu 8 ár. Þar sá hann og um kirkjusöng um lengri eða skemri tíma. Síðustu ár hans þar var fjárkreppan í almætti sínu og rán, þjófnaður og gripdeildir daglegir viðburðir. Fór Þórarinn ekki varhluta af því, og svifti hann því tjöldum og fór alfari heim til Íslands. Settist hann að á Seyðisfirði og átti þar heima til dauðadags. Hann andaðist þar 21. jan. 1941. Þórarinn var ókvæntur alla ævi.</p> <blockquote>Hann lifði og dó með söng í sál,<br /> og söngurinn var hans hjartans mál.</blockquote> <p>var sagt um hann látinn. Þegar hann var ekki önnum kafinn við störf sín, sat hann oftast við hljóðfærið sitt og lét fingurnar reika yfir nóturnar. Ég held, að á hinum mörgu einverustundum hafi hann fyrst byrjað að gefa tilfinningum sínum nýtt mál. Eitt er víst, að einhverju sinni trúði hann mér fyrir því, að hann væri búinn að skrifa allmörg lög við ýms íslensk kvæði. En hann kvartaði yfir því, að hann hefði aldrei fengið tilsögn í hljómfræði, og því gengi sér svo illa að raddsetja þau. Prófessor Sv. Sveinbjörnsson var þá í Winnipeg og daglegur heimagangur í húsi okkar hjóna. Það varð því úr að hann raddsetti 18 lög, sem Þórarinn gaf út skömmu síðar og nefndi "Vestrænir Ómar." En bæði var það, að þessi aðferð reyndist kostnaðarsöm og svo flutti Sveinbjörnsson heim til Íslands og dó skömmu síðar. Upp frá þeim tíma tók Þórarinn til að raddsetja lög sín sjálfur. Á íslandi gaf hann út þrjú hefti, sem hann nefndi "Hljómboða". Þau eru öll raddsett þannig, að hver sem les nótur og spilar dálítið. getur komist fram úr þeim fyrirhafnarlítið. Alls eru í þessum fjórum bókum um hundrað lög—sum snildarfögur og öll við gott hæfi mannsraddarinnar. Hann átti mörg fleiri lög óprentuð, sem að líkum hafa dáið með honum. Eftirtektarvert er það, hversu vítt rúm hann gefur sér í vali íslenskra ljóða. Meðal heimaskáldanna frá Símoni Dalaskáldi og niður til Davíðs Stefánssonar og annara samtíðarmanna. En af skáldunum hér vestra er St. G. Stephansson hæstur á blaði. Næst ganga, að ég held, Jakobína mágkona hans og bræður hans Gísli og Einar Páll. Af hinum mörgu ágætu lögum í Vestrænum ómum, má sérstaklega nefna "Brim" og "Dísarhöll", bæði við kvæði eftir Einar Benediktsson, "Dís Gróandans" og "Sumarlok", við kvæði eftir Einar Pál Jónsson, og "Sumar á förum". Af hinum mikla aragrúa af fallegum lögum í seinni heftunum nefni ég af handahófi "Árdís" við kvæði eftir Guðmund Friðjónsson, "Í sumarheimi" kvæði eftir St. G. Stephansson, "Þrá", við kvæði Jakobínu Johnson og "Mánadísin", við kvæði Davíðs Stefánssonar, sem er hreinasta perla.</p> <p>Það ber mest að harma, að Þórarinn hafði ekki djörfung eða efnahagslegar ástæður, meðan hann var á hæfilegu aldursskeiði, til að rífa sig upp með rótum, gefa atvinnuna á bátinn og ganga á reglulegan hljómlistarskóla, sem gefið heíði honum verklega tækni því andann vantaði ekki.</p> <p align="right">Nokkur Vestur-Íslensk tónskáld. Gísli Jónsson. Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga. 1. janúar 1950, bls. 76.</p>

Tengt efni á öðrum vefjum

Eiríkur Valdimarsson uppfærði 16.04.2020