Gísli Jónsson 09.02.1876-05.11.1974

Gísli Jónsson, ritstjóri í Winnipeg, fæddist á Háreksstöðum á Jökuldalsheiði 9.2. 1876. Foreldrar hans voru Jón bóndi Benjamínsson og k.h. Guðrún Jónsdóttir, en hún lést skömmu eftir að Gísli fæddist. Gísli gekk í Möðruvallaskóla 1894 og lauk þar námi 1896. Tveim árum síðar settist hann að á Akureyri og hóf prentnám. Þar kynntist hann Guðrúnu Helgu Finnsdóttur (1884-1946) sem var frá Geirólfsstöðum í Skriðdal. Foreldrar hennar voru Finnur Björnsson og Bergþóra Helgadóttir. Gísli og Guðrún gengu í hjónaband 1902 og fluttu vestur um haf 1903, til Winnipeg í Kanada, og bjuggu þar æ síðan. Flest systkini Gísla fluttust einnig út og sömuleiðis faðir hans. Gísli stofnaði prentsmiðju ytra þegar hann kom út og var prentsmiðjueigandi og prentari þar til hann varð ritstjóri. Hann lét fljótt til sín taka, bæði í almennum menningarmálum og kirkjumálum. Hann var dáður söngvari og tók mikinn þátt í únítarakirkjunni. Hann átti þátt í að stofna tímaritið Heimi 1904 og var prentari þess. Hann skrifaði einnig nokkuð í tímaritið og birti kvæði eftir sig undir nafninu Viðar. Þegar kom að stofnun Þjóðræknisfélags Íslendinga var hann frá upphafi einn af forvígismönnum þess og tók við ritstjórn Tímarits Þjóðræknisfélagsins 1940 en skrifaði einnig í tímaritið Heimskringlu. Hann gaf út tvær ljóðabækur: Farfuglar (1919) og Fardagar (1956). Gísli hlaut riddarakross Fálkaorðunnar 1950. Börn Gísla og Guðrúnar voru Helgi, prófessor í jarðfræði, en hann andaðist um líkt leyti og faðir hans og var jarðsunginn um leið og hann; Bergþóra sem bjó í Montréal, og Gyða og Ragna sem bjuggu í Winnipeg. Einnig áttu Gísli og Guðrún Unni sem lést ung. Í tímaritinu Andvara (1975) er stór grein um Gísla og þar er honum lýst svo: „Hann var hispurslaus í fasi og manna kurteisastur, hégómalaus og látlaus.“ Ritsafn Gísla, Haugaeldar, kom út 1962. Gísli Jónsson lést 5.11.1974.

Staðir

-

Heimildarmaður/flytjandi í eftirfarandi hljóðritum

8 hljóðrit
Dags Safnmark Efni Heimildarmenn #
21.09.1972 SÁM 91/2781 EF Gísli syngur: Jólasveinar einn og átta, tvisvar undir Passíusálma lagi. Gísli Jónsson 50011
21.09.1972 SÁM 91/2781 EF Gísli segir frá vinnutíma í prentsmiðju. Gísli Jónsson 50012
21.09.1972 SÁM 91/2781 EF Ýmislegt um Björn Jónsson prentara og ritstjóra á Akureyri, meðal annars um áhuga hans á kveðskap St Gísli Jónsson 50013
21.09.1972 SÁM 91/2781 EF Gísli segir frá sendiferðum sínum til að innheimta áskrifargjöld fyrir Björn Jónssonar ritstjóra, me Gísli Jónsson 50014
25.09.1972 SÁM 91/2781 EF Gísli raular tvær vísur úr rímum af Göngu-Hrólfi. Gísli Jónsson 50015
25.09.1972 SÁM 91/2781 EF Gísli segir frá reimleikum í kringum græna ferstrenda torfu. Draugur átti að vera það og fæla kindur Gísli Jónsson 50016
25.09.1972 SÁM 91/2781 EF Gísli segir frá sænautum sem áttu að hafa sést í Sænautavatni. Gísli Jónsson 50017
25.09.1972 SÁM 91/2781 EF Gísli segir frá konu að nafni Elínborg sem sagði margar sögur, uns hún fékk slag og missti minnið. Gísli Jónsson 50018

Eiríkur Valdimarsson uppfærði 12.03.2020