Hallfríður Ólafsdóttir (Haffí) 12.07.1964-04.09.2020

Hallfríður var fastráðin flautuleikari við Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá janúar 1997, fyrst sem pikkolóleikari og uppfærslumaður en sem leiðandi flautuleikari frá 1999. Hún kenndi einnig við Tónlistarskólann í Reykjavík og var flautuleikari kammerhópsins Camerarctica.

Hallfríður lauk bæði einleikaraprófi og kennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 1988 og var kennari hennar þar Bernharður Wilkinson. Hún fór þá utan til náms, fyrst hjá Trevor Wye og Kate Hill í Royal Northern College of Music í Manchester, og lauk þaðan Postgraduate Diploma eftir einn vetur. Hún komst þá að hjá William Bennett við Royal Academy of Music í Lundúnum, ein þriggja nemenda úr um hundrað manna hópi, og hlaut eftir tveggja ára nám Diploma of Advanced Studies, auk þess að hljóta styrk frá skólanum og önnur verðlaun í keppni tréblástursnemenda. Í framhaldinu lagði hún stund á franska tónlist hjá Alain Marion í París veturinn 1991-92 en kom að því loknu heim til Íslands sem flautuleikari og kennari í Reykjavík.

Meðfram starfi sínu hjá Sinfóníuhljómsveitinni lék Hallfríður einleikskonserta, m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands, og lagt stund á kammertónlist, fyrst og fremst með Camerarctica, auk þess að sinna uppfræðslu verðandi flautuleikara við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hallfríður hljóðritaði og gaf út á geisladiskum flautukvartetta eftir W.A. Mozart og ýmis íslensk kammerverk. Árið 2002 var Hallfríði veitt heiðursnafnbótin Honorary Associate of the Royal Academy of Music (HonARAM) sem veitist þeim fyrrum nemendum RAM sem notið hafa velgengni í starfi. Einnig hefur Royal Academy leitað eftir Hallfríði sem gestakennara við flautudeildina. Árið 2003 hlaut Hallfríður titilinn Bæjarlistamaður Garðabæjar.

Hallfríður var höfundur metsölubókanna Maxímús Músíkús heimsækir hljómsveitina sem gefin var út í mars 2008, Maxímús Músíkús trítlar í tónlistarskólann sem kom út í apríl 2010 og Maxímús Músíkús bjargar ballettinum sem út kom 2012.

Síðustu árin sinnti Hallfríður hljómsveitarstjórn í auknum mæli og stjórnaði tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Sinfóníuhljómsveitar áhugamanna, Sinfóníuhljómsveitar unga fólksins og bæði Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og Austurlands auk þess sem hún stjórnaði ýmsum minni hópum á borð við Íslenska flautukórinn og Hnúkaþey, sérstaklega í flutningi samtímatónlistar.

Hallfríður var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 2014 og Heiðursviðurkenning Útflutningsverðlauna forseta Íslands 2019 fyrir einstakt framlag til að auka hróður Íslands á erlendri grund.

Byggt á texta frá 2013 á vef Tónlistarskólans í Reykjavík og andlátsfregnum í dagblöðum 7. september 2020.

Staðir

Tónlistarskólinn í Reykjavík Tónlistarnemandi -1988
Konunglegi tónlistarháskólinn í Manchester Háskólanemi -
Konunglegi tónlistarakedemían í London Háskólanemi -
Kvennaskólann í Reykjavík Nemandi -
Menntaskólinn í Reykjavík Nemandi -

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
Camerarctica Flautuleikari 1992

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Flautukennari, flautuleikari, háskólanemi, nemandi og tónlistarnemandi
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 14.09.2020