Oscar Johansen 1883-

<p>Oscars er fyrst getið í grein sem Jón Pálsson skrifar í Lögrétta. 24. nóvember 1909:</p> <blockquote>Nýr fiðluleikari er væntanlegur nú bráðlega hingað til bæjarins, til þess að takast á hendur fiðluspil á Hótel „Ísland“. Hann heitir Oscar Johansen, og lýsir sænska tímaritið „Lektyr“ honum á þessa leið: „Oscar Johnsen er fæddur í Kaupmannahöfn 1883 og naut hann ókeypis kenslu í fiðluspili í sönglistarháskólanum þar um þriggja ára skeið. Að því búnu lærði hann hjá hinum mikla fiðluleikara, háskólakennaranum Valdemar Tofte og sumarið 1906 var hann söngstjóri í hljómleikaflokki Valdemars Neümann's. Hann er í miklu áliti í Gautaborg og talinn einn hinna fremstu fiðluleikara þar í borginni“.<br /> <br /> Þar eð mjer er kunnugt um, að herra Oscar Johnsen muni hafa í hyggju að nota frístundir sínar frá starfi sínu á „Hotel Ísland“ til þess að kenna mönnum að leika á fiðlu, vildi jeg leyfa mjer að benda ungum mönnum, konum sem körlum þeim er sönglist unna, á það, að nú virðist verða bætt úr hinum tilfinnanlega skorti á góðri kenslu í fiðluspili, og að betra tækifæri til að nema þessa fögru list, er óvíst, að bjóðist í bráð...</blockquote> <p>Enn skrifar Jón Pálsson um Oscar í Lögréttu 14. janúar 1910:</p> <blockquote>... Nú er hann [Oscar] kominn og mun óhætt að segja, að ekki hefir verið ofsögum sagt af listfengi hans. Hann leikur aðdáanlega vel á fiðlu, svo, að hann má vafalaust telja einn hinn æfðasta og fimasta fiðluleikara, sem til sín hefir látið heyra hér. Jafnvel þó allmörgum hafi þegar gefist kostur á að heyra hann á hótelinu, má gera ráð fyrir, að til séu þeir menn, konur og karlar, sem ýmsra orsaka vegna koma sjaldan eða aldrei á veitingahúsið, og fara þessvegna á mis við skemtun þá, er hann veitir þar, en vildu aftur á móti hlusta á hann annarsstaðar. Hr. O. Johansen hefir því hugsað sér að bæta úr þessu, með því að halda opinberan hljómleik í Iðnaðarmannahúsinu, þriðjudagskvöldið 18. þ. m., kl. 8<sup>1</sup>/<sub>2</sub>. Meðal annars, sem mönnum gefst kostur á að heyra hann leika þá, má benda á þetta: Sonate i D-dúr, eftir Händel, Concert nr. 7, eftir Bériot og Hejre Kati, eftir Jenö Hubay, hvert öðru fegurra og mikilfenglegra. Fröken Kristrún Hallgrímsson aðstoðar hann við hljómleik þennan...</blockquote> <p>Umsögn um hljómleika þessa birtist svo í Kvennablaðinu 20. janúar&nbsp;undir yfirskriftinni:</p> <blockquote>Hljómleikar þeir, sem hr. Oscar Johansen og frk. Kristrún Hallgrímsson héldu þ. 17. og 21. þ. m., voru ágætlega sóttir. Bæjarbúum var nýtt um að heyra slíkt fiðluspil. Hr. Oscar Johansen er listamaður, sem vert er að hlýða á, og fiðlan er það hljóðfæri, sem þykir taka flestum hljóðfærum fram að margbreytni. Tónar hennar geta í höndum listamannsins náð betri tökum á tilfinningum manna en flest önnur hljóðfæri. Fröken Hallgrimsson lék undir og gerði það ágætlega. Einkum lék hún annað lagið, sem hún lék ein, afbragðsvel.</blockquote> <p>Árni Thorsteinson skrifar um hljómleikana í Ísafold; hrósar fiðluleikara og píanóleik Kristrúnar en setur út á tónsmíðarnar sumar. Árni lýsir líka ánægju með veru Oscars í bænum. Í fyrsta sinn sé kominn til Reykjavíkur maður sem kennt geti á fiðlu; með tímanum geti mögulega skapast aðstæður fyrir stofutónlist og hljómsveitarspil.</p> <p>Í marsmánuði sama ár auglýsir Ísafold fyrirhugaða tónleika Oscars í Bárubúð undir yfirskriftinni Reykjavíkur annáll. Nefnt er að auk þess að leika tónlist eftir Bach, Beethoven Mozart og Edvard Grieg&nbsp;muni Oscar&nbsp;leika tvö ný lög eftir Sigfus Einarsson: „... Romance og Ballade. – Oss vitanlega hefir ekkert íslenzkt tónskáld, nema Svbj. Svbj. [Sveinbjörn Sveinbjörnsson] smíðað lög sérstaklega fyrir fiðlu eða yfirleitt annað en sönglög fyr en Sigfús gerir það nú...“</p> <p>Theódór Árnason segir nokkuð nákvæmlega frá komu Oscars til Reykjavíkur og áhrifum hans á tónlistarlíf bæjarins í grein í Vísi 19. apríl 1942. Johansen tók að sér kennslu og tilsögn samleikshópa auk þess að leika daglega fyrir gesti á Hótel Íslandi. Hann hélt og tónleika í Bárubúð og Iðnó og lék á fjáröflunarsamkomum. Heimildir eru einnig um að hann hafi farið nokkra daga með skipi til Stykkishólms til að skemmta.</p> <p>Oscar virðist hafa kunnað fleira fyrir sér en fiðluleik því 25. maí 1910 auglýsir Ísafold hljómleika í Bárubúð þar sem sérstaklega er tekið fram að öll „lögin á söngskránni“ séu eftir Oscar sjálfan. Í blaðaskrifum kemur fram að lögin hafi verið sjö og að „[m]jög góður rómur var gerður að þessu af áheyrendum.“</p> <p>Loks er vert að nefna merkilega frétt í Þjóðviljanum 9. júní 1910: „Fiðluleikarinn O. Johansen, Sigfús söngfræðingur Einarsson, og frú hans, hafa áformað, að stofna í sameiningu söngmenntaskóla hér í bænum, og hefur bæjarstjórnin ályktað, að lána þeim söngstofu barnaskólans í því skyni.“</p> <p>Af ofansögðu má sjá að koma Oscars hefur verið tónlistarlífi Reykjavíkur 1910 mikil lyftistöng.</p> <p>Í júní 1912, eftir um eins og hálfs árs dvöl á Íslandi, hélt Oscar og hin sænska eiginkona hans til New York-borgar (Lögrétta 26. júní 1912, bls. 127). Til marks um hæfni Oscars ná nefna að hann vann sér sæti fiðluleikara í New York Philharmonic Orchestra (Vísir. 19. apríl 1942, bls. 3). Theodór Árnason fiðluleikari sem lært hafði hjá Oscari fann hann í New York borg þegar hann átti þar leið um 1944 og átti með honum kvöldstund. Af frásögn Theodórs að dæma hafði&nbsp;Oscar komið sér vel fyrir í stórborginni (Vísir. 1. október 1944, bls. 5).</p>

Staðir

Hótel Ísland Fiðluleikari 1909-1912
Konunglegi tónlistarháskólinn í Kaupmannahöfn Háskólanemi -

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Fiðluleikari og háskólanemi
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 14.07.2015