Þórir Baldursson 29.03.1944-
Þórir Baldursson fæddist í Keflavík og ólst þar upp. Hann var í Barnaskóla Keflavíkur, lauk landsprófi og stundaði nám við MR í þrjá vetur en hóf þá nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og útskrifaðist þaðan af kennarabraut 1965. Hann var síðan söngkennari við Laugalækjarskóla 1965-67.
Varstu ekki í hljómsveit í Keflavík?
„Jú, jú. Pabbi lék í danshljómsveit og ég byrjaði 7 ára að fikta við harmonikuna hans, fékk svo mína eigin nikku, fór í píanótíma til Vigdísar Jakobsdóttur og lærði á franskt horn og lék í lúðrasveit hjá Guðmundi Norðdahl.
Ég byrjaði að hlaupa í skarðið í hljómsveitinni með pabba er ég var 10 ára, var 12 ára í skólahljómsveitinni GK og 14 ára var ég kominn í hljómsveit sem lék í Krossinum um hverja helgi og stundum uppi á Velli.
Eftir að ég hóf menntaskólanám lék ég svo með ýmsum í Reykjavík, leysti m.a. af í KK-sextettinum.“
Varð Savanna tríóið til í MR?
„Já og nei. Við Björn Björnsson vorum sessunautar í MR en Troels Bendtsen kom úr Versló. Við komum fyrst fram opinberlega á nýárs- dag 1963, gáfum út litla plötu um vorið og „Suðurnesjamenn“ slógu í gegn. Vinsældirnar voru gífurlegar. Fyrstu vikuna í apríl komum við fram á 18 skemmtunum og fyrsta hálfa árið 157 sinnum.
Við gáfum út aðra litla plötu snemma árs 1964 og stóra plötu hjá SG hljómplötum þá um haustið en hún sló öll sölumet. Við gáfum út aðra stóra plötu 1965, en sú þriðja, 1966, og sú fjórða, 1967, voru teknar upp í London. Síðan hafa verið gefnar út safnplötur og diskar og 1991 sendum við frá okkur diskinn „Eins og þá“ sem ég er svolítið stoltur af.
Savanna tríóið kom fram í frægum skemmtisjónvarpsþætti Magnúsar Magnússonar, Tonight Show, hjá BBC, 1965. Við vorum með skemmtiþátt í íslenska Sjónvarpinu á fyrsta útsendingardegi þess 30. september 1966 og gerðum fjóra aðra þætti fyrir Sjónvarpið. Loks komum við fram í sænska sjónvarpinu sem fulltrúar Íslands í samnorrænum sjónvarpsskemmtiþætti í árslok 1967. En þá var kominn tími til að breyta til.“
Þórir lék með hljómsveitinni Heiðursmenn í Þjóðleikhúskjallaranum og í Klúbbnum 1968-70, lék einn á orgel á börum í Stokkhólmi frá 1970 og síðan með sænskri hljómsveit, lék með þýskri hljómsveit í Sviss 1972 og settist síðan að í München. „Þar byrjaði ég að stjórna upptökum og útsetja fyrir alvöru. Eitt leiddi af öðru. Ég starfaði mikið með Donnu Summer sem varð stórstjarna á skömmum tíma, vann með Elton John, Grace Jones og fjölda annarra tónlistarmanna í Bandaríkjunum 1980-82.“
Þórir kom til Íslands 1982, starfaði þá með mági sínum, Rúnari Júlíussyni, í hljómsveitinni og hljóðverinu Geimsteini, sinnti síðan upptökustjórn og útsetningum á rythm and blues-tónlist í Bandaríkjunum 1987-90. Þá kom hann aftur heim, hóf kennslu við Tónlistarskóla FÍH og hefur kennt þar síðan. Jafnframt lék hann með Hljómsveit Björgvins Halldórssonar á Hótel Sögu, Brimkló og Geimsteini, og hefur leikið dinnermúsík í Perlunni aðra hverja helgi í 15 ár.
En svo er það djassinn, Þórir. „Já. Við Rúnar Georgsson spiluðum oft saman frá 12 ára aldri en ég fór fyrst að leika djass fyrir alvöru með Birni Thoroddsen og Skúla Sverris. Síðan hef ég spilað mikið með þessum snillingum sem nú eru að ná miðjum aldri, s.s. Jóel Pálssyni og Sigurði Flosasyni, en ég spila á fjórum diskum hans.“
Margir telja þig mesta Hammond-orgelsnilling norðan Alpa- fjalla:
„Það eru líklega ýkjur. En ég eignaðist fyrsta Hammondinn 1968, hef greint hljóðfærið niður í frumparta, teiknað upp alla elektróník þess og kann því að gera við hann. Hammondinn er ekki elektrónískt hljóðfæri heldur knúið af rafmótor. Það hefur lítið breyst frá 1935, er eitt vinsælasta hljómborð sögunnar, hentar allri tónlist, er blæbrigðaríkt og aldrei yfirþyrmandi.“
Þórir gaf út sólóplöturnar Hammond molar, sem er tileinkuð föður hans, og „live“ afmælistónleika Þóris í Ráðhúsinu er hann varð sextugur. Hann hefur leikið inn á aragrúa hljómplatna og diska með gífurlegum fjölda tónlistarmanna, íslenskra sem erlendra. Þá hefur hann samið fjölda laga um langt árabil.
Þórir hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna 2011.
Þórir Baldursson tónlistarmaður 70 ára. Morgunblaðið. 29. mars 2014, bls. 48-49.
Hópar
Hópur 1 | Stöður | Frá | Til |
---|---|---|---|
Savanna tríóið | Söngvari, Gítarleikari, Útsetjari og Harmonikuleikari |
Heimildarmaður/flytjandi í eftirfarandi hljóðritum
Skjöl
Tengt efni á öðrum vefjum
- Elton John og Donna Summer standa upp úr. Fréttablaðið 5. maí 2014, bls. 18
- Heidursverdlaunahafi Íslensku tónlistarverðlaunanna 2011
- Thorir Baldursson fan club (FaceBook)
- Tónlist.is
- YouTube
- Ég fanna að ég gat fundið svona til - viðtal. Lesbók Morgunblaðsins. 22. febrúar 2003, bls. 4
- Þórir Baldursson leikur vinsæl íslensk lög (Wikipedia.is)
- Þórir Baldursson tónlistarmaður 70 ára – fjölskylda og frændgarður. Morgunblaðið. 29. mars 2014, bls. 48-49

Lagahöfundur, organisti, tónlistarkennari, upptökustjóri og útsetjari | |
Ekki skráð |
Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 10.05.2016