Kristján Hreinn Stefánsson (Kristján frá Gilhaga) 29.04.1944-

Kristján er fæddur í Gilhaga á Fremribyggð í Lýtingsstaðahreppi og ólst þar upp. Hann er búfræðingur frá Hvanneyri 1967 og nam síðar rafsuðu.

Kristján, sem var með lögheimili í Gilhaga til 1989, starfaði við eigin búrekstur ásamt ýmsu öðru og var í mörg sumur vélamaður hjá Ræktunarsambandi Skagafjarðar og vann ennfremur hjá Slippstöðinni á Akureyri um árabil. Hann stundaði refaveiðar og grenjavinnslu í Lýtingsstaðahreppi til fjölda ára og með búskapnum vann Kristján alltaf við járnsmíði og vélaviðgerðir ásamt því að byggja íbúðarhús í Gilhaga 1976-80. Hann flutti í Varmahlíð 1989 og starfaði sem viðgerðarmaður á verkstæði Hagvirkis á meðan bygging Blönduvirkjunar stóð yfir og síðan við margs konar handverk. Kristján hefur fengist við að stoppa upp dýr og fugla og er nú umsjónarmaður Náttúrugripasafns Skagafjarðar.

Kristján, sem hefur sungið með Karlakórnum Heimi í yfir þrjátíu ár, hefur í vetur skrifað þætti fyrir Skagfirskar æviskrár en ýmsar greinar og frásagnir hans hafa birst í blöðum og tímaritum. Hann hefur samið vísur og ljóð og leikið á harmóníku frá barnæsku ...

Úr grein um Kristján Hrein fimmtugan. Dagblaðið Vísir - DV 29. apríl 1994, bls. 34.


Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 18.03.2014