Sigfús Halldórsson (Fúsi) 07.09.1920-21.12.1997

Sigfús fæddist í Reykjavík 7. september 1920, í húsi númer 47 við Laufásveg, þar sem hann ólst upp. Sigfús var yngstur átta barna þeirra Halldórs Sigurðssonar, úrsmiðs og konu hans Guðrúnar Eymundsdóttur. Töluvert músíklíf var á heimilinu þar sem fólk safnaðist saman á góðri stund og söng, húsmóðirin lék á gítar og að minnsta kosti tvær systranna voru ágætis píanóleikarar. Litli snáðinn mun ekki hafa verið nema þriggja ára gamall þegar hann var fainn að spila á heimilispíanóið og er þá ekki verið að tala um að pikka með einum putta, heldur spila með þeim hljómum sem litlar hendur gátu náð. Átta ára var drengurinn sendur í spilatíma til Önnu Péturs og síðar til Katrínar Viðar. Sama ár og hljóðfæranámið hófst var Sigfús einnig í sveit á Bakka í Landeyjum og þá samdi hann Hreiðrið mitt við ljóð Þorsteins Erlingssonar sem er elsta lag sem varðveist hefur eftir hann.

Vorið 1934 hóf Sigfús að starfa í Útvegsbanka Íslands þar sem hann hitti fyrir marga ágætis menn sem síðar áttu eftir að reynast honum vel. Það voru þeir Brynjólfur Jóhannesson, Indriði Waage og síðast en ekki síst Pétur Pétursson, síðar útvarpsmaður, en sá síðastnefndi átti stóran þátt i því að koma lögum Sigfúsar á framfæri. Hann hafði m.a. milligöngu um að fá Tómas Guðmundsson til að gera texta við lögin Dagny og Við eigum samleið sem Pétur, við annan mann, lét gefa út. Pétur stóð einnig fyrir fyrstu danslagakeppni sem haldin var hér á landi árið 1939, en þar bar Dagny sigur úr býtum.

Á Útvegsbankaárunum samdi Sigfús fleiri lög sem enn lifa góðu lífi; má þar nefna Við tvö og blómið, Í dag, Ég vildi að ung ég væri rós og Sól stattu kyrr auk kórverksins Stjáni blái. Á þessum árum var Sigfús einnig virkur í starfi með Leikfélagi Reykjavíkur og má geta þess að mörg laga hans frá þessum tíma urðu til í Iðnó. Þá var hann í námi í Tónlistarskólanum í Reykavík, þar sem hann m.a. naut handleiðslu Victors Urbancic.

Sigfús iðkaði einnig fimleika með ÍR og spilaði fótbolta veð Val, en síðarnefnda félagið stóð honum alla tíð nærri. Þá er þess að geta að hann fór ungur að fást við að teikna og mála og um skeið nam hann við teikniskóla Marteins Guðmundssonar og Björns Björnssonar. Það var því margt að brjótast um í ungum listamanni og hann átti um skeið erfitt með að ákveða í hvaða farveg hann vildi beina hæfileikum sínum.

Árið 1944 hélt Sigfús utan til Englands þar sem hann nam leiktjaldamálun við Slade Fine Art School. Listmálun tók Sigfús sem aukagrein og fékk þar ómetanlega tilsögn í meðferð vatnslita. Liklega má rekja áhuga Sigfúsar á að mála myndir af húsum til þessa tíma. Sigfús lauk námi, sem gert var ráð fyrir að tæki þrjú ár, á einu ári og varð efstur þeirra sem luku burtfararprófi frá skólanum árið 1945. Að námi loknu starfaði Sigfús í nokkra mánuði við leikhús í London og Northampton en hélt síðan aftur heim þrátt fyrir að honum stæðu ýmsar dyr opnar á Englandi.

Í janúar 1947 hélt Sigfús sýningu á leiktjaldamyndum ásamt myndum sem ýmist voru málaðar á Íslandi eða á Englandi. Vorið 1947 málaði hann leiktjöld í leikritið Tondeleyó sem Leikfélag Reykjavíkur setti upp og fór þar einnig með lítið hlutverk sem þjónninn Jim Smith. Haustið 1947 fór Sigfús til Svíþjóðar þar sem hann vann við leiktjaldamálun hjá Stokkhólmsóperunni í einn vetur.

Síðustu vikur ársins 1951 dvaldi Sigfús á Reykhólum og þar varð Litla flugan til en eins og kunnugt er hafa fá lög náð viðlíka vinsældum hér á landi og þetta „litla“ líflega lag. Það var fyrst flutt opinberlega á jólaskemmtun á Reykhólum en þjóðin söng lagið eftir að hafa heyrt Sigfús syngja það í útvarpsþætti Péturs Péturssonar í febrúar 1952. Sama ár komu út hjá Íslenskum tónum fyrstu hljómplöturnar með lögum Sigfúsar. Um sumarið ferðaðist hann um allt land ásamt Soffíu Karlsdóttur og Höskuldi Skagfjörð, með skemmtidagskrá sem nefndist „Litla flugan“. Í kjölfarið á Litlu flugunni komu lög eins og Játning, Íslenskt ástaljóð, Þín hvíta mynd, Hvers vegna og Amor og asninn.

Snemma árs 1952 kynntist Sigfús tilvonandi eiginkonu sinni Steinunni Jónsdóttur og þann 17. janúar 1953 voru þau gefin saman í hjónaband í kapellu Háskóla Íslands af góðum vini Sigfúsar, séra Sigurði Einarssyni í Holti. Börn Sigfúsar og Steinunnar eru Gunnlaugur Yngvi og Hrefna. Fyrstu árin bjó fjölskyldan í Reykjavík en árið 1963 fluttu þau sig um set og bjuggu upp frá því í Kópavogi.

Sigfús gegndi ýmsum störfum á sjöunda áratugnum. Hann byrjaði áratuginn í málarasal Þjóðleikhússins en hætti þar 1952 og vann eftir það lítið við leiktjaldamálun. Síðar starfaði Sigfúst m.a. hjá J. Þorláksson og Norðmann og á bókasafni Bandaríkjahers, en hóf loks að vinna á Skattstofunni í Reykjavík árið 1958.

Þegar Sigfús varð fertugur sendi hann frá sér hefti með tíu sönglögum og kveður þar við alvarlegri tón en í flestum þeirra laga sem nefnd eru hér að framan. Þessi útgáfa var sérlega vönduð og falleg en hún var handverk frá upphafi til enda.

Árið 1962 var Sigfús fenginn til að semja lag í kvikmyndina 79 af stöðinni. Þá varð til lagið Vegir liggja til allra átta. Um svipað leyti samdi hann Lítill fugl og skömmu síðar Í grænum mó.

Úlfur Ragnarsson og Sigfús hófu samstarf árið 1965 og bar samvinna þeirra ríkulegan ávöxt. Þekktust þeirra laga eru sennilega Afadrengur og Gras

Þegar Sigfús varð fimmtugur árið 1970 kom út sönglagabók sem innihélt 48 laga hans og seldist hún upp á örfáum árum. Ráðist var í endurútgáfu 1978, bætt við lögum, og innihélt sú bók 61 lag. Á þessum tímamótum gaf SG hljómplötur út 12 laga plötu með poppútsetningum Jóns Sigurðssonar, á þekktustu lögum tónskáldsins, í flutningi systkinanna Ellýjar og Vilhjálms sem varð gífurlega vinsæl.

Á sjötugs afmæli Sigfúsar stóð svo Kópavogsbær að útgáfu nótnabókar þar sem er að finna 21 einsöngslag auk nokkurra laga í kórútsetningum.

Árið 1968 hætti Sigfús á Skattstofunni og gerðist teiknikennari í Lagnholtsskóla þar sem hann starfaði til ársins 1981 en þá gat hann loks látið áratuga gamlan draum rætast og snúið sér óskiptur að listsköpun.

Hér hefur lítið verið fjallað um myndlistarmanninn Sigfús Halldórsson en hann hélt fjölda sýninga víða um land. „Húsamyndir“ Sigfúsar þekkja margir. Þessar myndir eru ekki aðeins falleg málverk því þær eru oft góður minnisvarði þess sem nú er horfið og hafa heimildargildi.

Sigfús hlaut fjölda viðurkenninga fyrir störf sín á sviði menningar og lista. Nefna má riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 1979 og heiðursmerki frá Alþingi. Einnig var Sigfús heiðurslistamaður og heiðursborgari Kópavogs. Segja má að stærsta viðurkenningin sé samt komin frá fólkinu í landinu sem frá því að fyrstu lög hans fóru að heyrast og allt fram á þennan dag hefur sungið og spilað tónlist hans og gert hana að sinni.

Sönglög Sigfúsar Halldórssonar. Sigfús Halldórsson Útgáfa. Reykjavík 2010.

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Leiktjaldamálari, listmálari, tónlistarmaður og tónskáld

Gunnlaugur V. Snævarr uppfærði 8.09.2015