Hróarstunga Landsvæði

<p>Hróarstunga er vel aðgreind sem svæðið á milli stórvatnanna, Lagarfljóts og Jökulsár á Dal, frá sjó og inn að Rangá að austan og Heiðarenda að vestan. Að landslagi má skipta henni í tvo hluta. Framtunga er tungulaga fjallsflötur, um 150-200 m y.s., og kallast innri hluti hennar Lágheiði. Flöturinn er settur mörgum sprungum og misgengjum (sigdölum) líkt og hann hafi verið skorinn í ræmur og púslað aftur saman, og einkennist þetta landslag af mjóum og löngum ásum og mýrasundum eða vötnum, líkt og í Útfellum, eins og fyrr var lýst. Báðum megin við Lágheiði er nokkurt undirlendi meðfram vatnsföllum og standa þar flestir bæir. Á Lágheiði hefur verið stopul byggð en fjöldi fornra rústa bendir meiri byggðar fyrr á öldum. Úttunga er láglendisflatneskja, hluti af óshólmasvæði Héraðs, alsett gömlum árfarvegum, og hefur jafnan verið strjálbyggð.</p> <p>Sveitin er yfirleitt fremur votlend og þar eru mörg stöðuvötn, smá og stór, flest aflöng í sprungustefnu, sum mjög löng og mjó. Á þurrlendi er ríkjandi lynggróður og um miðja sveit er víðlent birkikjarr. Víða er blómlegur gróður austan í ásum, sem tengist snjólegu að vetri og skjóli, því að hvössustu veður eru af vestri og norðvestri. Séð af þjóðvegi virðist landslag í Tungu fremur einsleitt og sviplítið, en við nánari skoðun reynist það með því fjölbreytilegasta á Héraði. Hróarstunga hefur um aldir verið sérstakur hreppur (Tunguhreppur), en sameinaðist Jökuldals- og Hlíðarhreppum á síðasta áratug og öðrum Héraðshreppum 2004.</p> <p align="right"><a href="http://www.alta.is/nms/?m=t&t1=8&t2=0&t3=0"> Náttúrumæraskrá Fljótsdalshéraðs.</a></p>

Fólk

Sýna fólk tengt stöðum undir þessum stað.

Tengd hljóðrit


Eiríkur Valdimarsson uppfærði 24.03.2021