Tónmenntaskóli Reykjavíkur Tónlistarskóli
<p>Frá stríðslokum höfðu verið starfandi barnadeildir eða undirbúningsdeildir fyrir börn í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Frumkvæði að stofnun þessara barnadeilda hafði dr. Heinz Edelstein en hann hafði verið ráðinn sem sellókennari og kennari í kammermúsík að skólanum haustið 1938, auk þess að vera ráðinn sellóleikari við nýstofnaða Hljómsveit Reykjavíkur.</p>
<p>Barnadeildirnar í Tónlistarskólanum uxu jafnt og þétt næstu árin og starfsemin varð æ umfangsmeiri. Um 1950 fór Heinz Edelstein að huga að nýjum ramma eða skipulagsgrundvelli fyrir þessa starfsemi. Í júní 1951 lagði hann „Tillögur um alþýðlegan músíkskóla“ fyrir fræðslumálastjóra. Þessar tillögur hlutu góðan hljómgrunn og voru samþykktar af fræðslumálastjórn. Ragnar Jónson forstjóri og menningarfrömuður sýndi þessu máli mikinn áhuga og styrkti Heinz Edelstein til námsdvalar í Þýskalandi veturinn 1951-52 í þeim tilgangi að hann kynnti sér það sem efst var á baugi þar í tónlistaruppeldismálum.</p>
<p>Haustið 1952 var skólinn formlega stofnaður og hlaut nafnið Barnamúsíkskólinn. Í skólaráði voru dr. Páll Ísólfsson skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík, Ragnar Jónsson forstjóri, dr. Róbert Abraham Ottósson hljómsveitarstjóri og Ingólfur Guðbrandsson kórstjóri. Skólinn tók til starfa í september 1952.</p>
<p>Dr. Heinz Edelstein var skólastjóri frá stofnun skólans til vors 1956. Eftirmaður hans Ingólfur Guðbrandsson stýrði skólanum veturinn 1956-57 en þá tók dr. Róbert Abraham Ottósson við stjórn skólans til vorsins 1961. Veturinn 1961-62 veitti Jón G. Þórarinsson skólanum forstöðu en frá hausti 1962 hefur Stefán Edelstein verið skólastjóri skólans.</p>
<p>Í upphafi voru aðeins tveir kennarar við skólann, Heinz Edelstein og Róbert Abraham Ottósson. Sinntu þeir allri kennslu við skólann fram til vorsins 1955. Smám saman bættust við fleiri kennarar eftir því sem skólinn dafnaði og nemendum fjölgaði.</p>
<p>Á fyrstu árum skólans voru kennsluáætlanir þannig að nemendum var kennt í hópum í minnst þrjú ár. Lögð var áhersla á söng, hreyfingu og grundvallaratriði tónfræðinnar en nemendur gátu einnig stundað hljóðfæranám í smáhópum, annað hvort á píanó, blokkflautu eða einföld strengjahljóðfæri. Smám saman breyttist námskipan og kennsluhættir. Árið 1977, þegar gamli Barnamúsíkskólinn flutti í húsnæði gagnfræðaskólans við Lindargötu og tók upp nafnið <strong>Tónmenntaskóli Reykjavíkur</strong> var núverandi skipulagi komið á...</p>
<p align="right">Úr námskrá Tónmenntaskólans – Forsaga og þróun – sem birt er á vef skólans (15. janúar 2015).</p>
Fólk
Tengt efni á öðrum vefjum
- Barnamúsíkskóli Reykjavíkur 25 ára. Alþýðublaðið. 29. nóvember 1977, bls. 8.
- Barnamúsíkskólinn 25 ára. Alþýðublaðið. 26. nóvember 1977, bls. 2.
- Litið við hjá Tónmenntaskóla Reykjavíkur – Skapað úr tré og tónum. Ríkarður Örn Pálsson. Þjóðviljinn. 7. apríl 1979. bls 10-11.
- Markmiðið er virk og gagnrýnin þátttaka einstaklinganna í alhliða tónlistarlífí – Tónmenntaskóli Reykjavíkur sóttur heim í lok 30. starfsárs hans. Margrét Heinreksdóttir. Morgunblaðið. 14. maí 1983, bls. 14-15.
- Músíkskóli fyrir börn tekur til starfa í október. Vísir. 20. september 1952, bls. 7.
- Tónmenntaskóli Reykjavíkur 40 ára. Hávar Sigurjónsson. Morgunblaðið 16. apríl 1992, bls. 22-13.
- WWW
- Þar mæta þau Musicu fyrst. Rætt við dr. Róbert A. Ottósson og Jóhönnu Jóhannesdóttur um Barnamúsíkskólann. Tíminn. 23. september 1960, bls. 11.
Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 6.04.2021