Austurbæjarbíó Tónleikastaður

Austurbæjarbíó eða Austurbær er kvikmynda- tónleika- og leikhús sem stendur við Snorrabraut í Reykjavík. Það var reist af nokkrum athafnamönnum í Reykjavík á árunum 1945 til 1947 og formlega opnað 25. október það ár. Aðstandendur voru jafnframt forystumenn Tónlistarfélagsins í Reykjavík sem hafði verið stofnað 1932. Hönnuðir hússins voru arkitektarnir Hörður Bjarnason og Gunnlaugur Pálsson.

Salurinn tekur um 800 manns í sæti á einu gólfi. Hann var innréttaður með tilliti til tónlistarflutnings og fyrir framan kvikmyndatjaldið var svið sem gat borið 40 manna hljómsveit. Húsið var stærsta samkomuhús landsins við opnun þess. Frá upphafi var vinsælt að halda tónleika í húsinu þegar ekki voru sýndar kvikmyndir. Fyrstu kvikmyndirnar sem sýndar voru voru Ég hef ætíð elskað þig (I've Always Loved You) og Hótel Casablanca (A Night in Casablanca).

Húsið var vettvangur fyrir miðnæturrevíur á vegum fyrst Íslenzkra tóna og síðar Leikfélags Reykjavíkur sem hélt þær sem fjáröflun fyrir Borgarleikhúsið.

1955 til 1975 var skemmtistaðurinn Silfurtunglið rekinn á efri hæð hússins.

Sambíóin eignuðust Austurbæjarbíó 1985 og 1987 var nafni hússins breytt í Bíóborgin. Bíóborgin var fyrsta kvikmyndahúsið á Íslandi sem setti upp THX-hljóðkerfi.

2002 var kvikmyndasýningum hætt í húsinu og var ætlunin að rífa húsið og reisa þar fjölbýlishús. Hætt var við þær áætlanir og húsið hefur síðan verið nýtt sem leikhús og samkomuhús. Þar hafa meðal annars verið settir upp nokkrir vinsælir söngleikir síðustu ár.

Af Wikipediasíðu um Austurbæjarbíó (18. júlí 2014)

Í byrjun nóvember 1947 birta dagblöð í Reykjavík frétt um að Jórunn Viðar muni miðvikudaginn 5. nóvember halda sína fyrstu píanótónleika á Íslandi eftir nokkurra ára tónlistarnám í Berlín og New York. Tónleikarnir verði í „Austurbæjarbíói og eru það fyrstu tónleikarnir sem þar fara fram.“ Þetta var þá rúmri viku eftir að húsið var formlega opnað samkvæmt því sem greint er frá hér ofar.

Jón Hrólfur (3. mars 2015)

Hópar

Fólk

Færslur: 1

Nafn Tengsl
Gunnar Hrafnsson Nemandi

Tengd hljóðrit


Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 29.01.2016