Tónlistarskóli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar Tónlistarskóli

Tónlistarskóli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar var stofnaður árið 1974 (skólinn er reyndar kallaður Tónskóli fyrsta árið). Fyrsti skólastjórinn var Sr. Sigurður H. Guðmundsson. Rekstrarkostnaður fyrsta skólaárið var áætlaður 3.420.000, þar af 1.000.000 í hljóðfærakaup. ekki fylgir sögunni hvort áætlunin stóðst. Áður hafði Jón Mýrdal séð um tónlistarkennslu á Eskifirði við Tónskóla Eskifjarðar en ekki fer sögum af tónlistarkennslu á Reyðarfirði.

Haustið 1975 festi skólinn m.a. kaup á Yamaha U1H píanói á kr. 390.000 og Yamaha B5CR rafmagnsorgeli er kostaði 236.000 kr. Sótt var um styrk til menntamálaráðuneytis vegna þessarra kaupa. Ekki kemur fram í gögnum skólans hvort sá styrkur hafi verið veittur.

Haustið 1974 virðist sr. Sigurður hafa verið í bréfaskriftum við þýzka stúlku, Silke Jochims, um að koma og kenna. Hún lýsti sérstökum áhuga á að koma til Íslands eftir að hafa hitt mann sem var tónlistarkennari á Neskaupstað (hún náði ekki nafni hans). Hún lenti svo í erfiðum veikindum í ferðalagi í Nepal og var aldrei ráðin til starfa.

Haustið 1975 var Tékkinn Pavel Smid ráðinn til starfa við skólann ásamt eiginkonu sinni Violetu Smidovu en hún var búlgarskur ríkisborgari. Til stóð að ráða anna Tékka að nafni Jan Homan en það gekk ekki upp eins og sjá má í skeyti sem sent er til skólastjóra frá Prag þann 3.7.1975: “Engagement smid ok homan not possible letter follows, dr. Zitko, Pragokonzert.” Virðist sem Hr. Homan hafi staðið í þeirri trú að hann væri að fara að kenna á franskt horn eingöngu við Tónlistarskóla Eskifjarðar og Reyðarfjarðar og gekk skólastjóra illa að ná sambandi við hann og virðist sem Hr. Homan hafi aldrei svarað neinum bréfum sr. Sigurðar. Eitt skeyti frá honum er til í gögnum skólans, sent frá Prag 16.9.1974 og hljóðar svo: “Yes contact pragokoncert.” Virðist þetta dularfulla Pragokonzert hafa verið með einhvers konar milligöngu um ráðningu tékkanna. Einnig er til handskrifað skeyti sent frá Reykjavík til Kritsins Einarsonar sveitarstjóra á Reyðarfirði og er svohljóðandi: “Sendiráðið skrifar til Prag og gengur eftir svörum þaðan. Kveðja, Vilhjálmur Hjálmarson.” Lítur út fyrir að yfirmenn bæjarfélaganna hafi verið orðir þreyttir á seinagangi Tékkanna og fengið alþingismanninn í málið.

Í apríl 1975 er gerður samningur á milli bæjarstjórna Eskifjarðar og Reyðarfjarðar um rekstur skólans. Í honum er m.a. kveðið á um að kostnaðarskipting sé sú að Reyðarfjörður greiði 41% og Eskifjörður 59%. Er skiptingin byggð á íbúafjölda staðanna. Stofnkostnað, s.s. vegna hljóðfærakaupa greiddu sveitarfélögin hvort fyrir sig...

Sjá nánar á vef Tónlistarskóla Eskifjarðar og Reyðarfjarðar.

Fólk


Tengd hljóðrit


Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 20.01.2015