Þórscafé Skemmtistaður

Veitingamennirnir Ragnar Jónsson og Baldvin Guðmundsson opnuðu 11. september 1945 skemmtistaðinn Þórscafé á annarri hæð stórhýsis að Hverfisgötu 116 við Hlemmtorg. Húsnæðið var lengi kennt var við Svein Egilsson sem þar rak um tíma bílasmiðju.

Samkvæmt blaðafrétt 1958 keypti Brunabótafélag Íslands húseignina við Hlemm 1955 og var leigusamningi skemmtistaðarins þá sagt upp. Ragnar Jónsson reisti þá nýtt hús fyrir Þórscafé að Brautarholti 20, á horni Brautarholts og Nóatúns. Nýja Þórscafé opnaði 22. október 1958 og lék KK-sextett fyrir dansi, Elly Vilhjálms og Ragnar Bjarnason sungu. Haft var eftir Kristján Kristjánsson síðar að KK-sextettinn sem þarna birtist hafi orðið vinsælasta gerð sveitarinnar. Geta má þess að skemmtistaðurinn Röðull opnaði sama kvöld á næsta horn, Skipholti 19; hafði áður starfað á Laugavegi 89 frá því á stríðsárunum síðari.

Í blaðagrein frá 23. nóvember 1958 um hinn nýja skemmtistað segir: „Hinn nýi salur á Þórscafé tekur 300 manns, en gamli salurinn tók 220. Salurinn er mjög rúmgóður og vistlegur, dansgólfið er lagt terrassó, en það er alger nýjung hér á landi, en tíðkast víða á Spáni og ítalíu. Gólfið er mjög fallegt og þægilegt er að dansa á því...“

Frjáls verslun lýsir Þórscafé svona 1. september 1975:

Þórskaffi að Brautarholti 20 er skemmtistaður án vínveitingaleyfis og þar er ekki seldur matur, en nú er unnið að stækkun staðarins og þegar vibótin verður tekin í notkun, verða þar væntanlega matar- og vínveitingar. Eins og er tekur staðurinn 339 gesti og er opinn fjögur kvöld í viku. Hljómsveitir leika nýju og gömlu dansana. Lágmarksaldur gesta er 16 ár.

Þórscafé lagðist sennilega af sem skemmtistaður upp úr 1990...

Fólk

Skjöl


Tengd hljóðrit


Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 17.12.2015