Röðull Skemmtistaður

<p>Veitingahúsið Röðull hafði starfað við Laugveg 89 að minnsta kosti frá því í lok seinna stríðs. Á tímabili virðist starfsemin hafa legið niðri því 15. maí 1954 er staðurinn opnaður aftur eftir „allsherjarviðgerð“ og er lofað glæsilegri starfsemi, samkvæmt umfjöllun dagblaða. Hljómsveit undir stjórn Þorvaldar Steingrímssonar muni leika létt-klassíska músík milli kl. 15 og 16 á daginn og 20 og 21 á kvöldin. Önnur sveit undir stjórn Árna Ísleifssonar leiki fyrir dansi og aðstoðaði skemmtikrafta innlenda sem erlenda. Af innlendum skemmtikröftum sem ráðnir hafi verið eru Alfreð Clausen, Sigrún Jónsdóttir, Ragnar Bjarnason, Baldur Georgs og Ingibjörg Þorbergs. Einnig er nefnt að „blökkumaðurinn“ Ellis Jackson frá Lundúnum muni skemmta næsta mánuðinn og&nbsp;von sé á spænskri dansmey í júní.</p> <p>Líkt og gerðist með Þorscafé við Hlemmtorg virðast eigendaskipti á því húsnæði sem staðurinn leigði hafa valdið því að Röðull við Laugaveg lokaði 1957. Um ári síðar, 22. nóvember 1958, opnaði svo nýr Röðull í Skipholti 19 (Sama kvöld opnaði Þórscafé á næsta horni í Brautarholti 20). Þjóðviljinn flutti frétt af þessum viðburði 23. nóvember:</p> <blockquote>Í gærkvöldi var veitingahúsið Röðull opnað að nýju og er nú til húsa að Skipholti 19, á horni Skipholts og Nóatúns.<br /> <br /> Hið nýja veitingahús er sérlega smekklega innréttað og skiptist í rúmgóðan forsal, vínstofu, veitingasal sem tekur um 200 manns og danssal.<br /> <br /> Nýi Röðull er í flokki 1. fl. veitingahúsa og mun hafa opið á venjulegum veitingatíma. Árni Elfar og kvartett hans munu leika fyrir dansi og Haukur Morthens syngja. Einnig munu Árni og Jónas Dagbjartsson, fiðluleikari, leikalétta klassíska músík.</blockquote> <p>Lýsing á Röðli í Frjálsri verslun 1. september 1975 gefur hugmynd um staðinn á þeim tíma:</p> <blockquote>Röðull, er veitinga- og skemmtistaður að Skipholti 19 og rúmar hann 265 gesti. Staðurinn er opinn daglega frá kl. 20 og eins og iög segja fyrir um, en lokað er á miðvikudögum. Á matseðli eru alhliða smáréttir. Tveir barir eru á staðnum. Hljómsveit leikur alltaf fyrir dansi. Lágmarksaldur gesta er 18 ár. Staðurinn er ekki leigður út og matur er ekki seldur út. Breytingar á staðnum standa jafnvel fyrir dyrum.</blockquote>

Fólk

Skjöl


Tengd hljóðrit


Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 18.12.2015