Minningar úr tónlistarlífinu

Æviágrip
Foreldrar Eyþórs eru þau Þorlákur Guðlaugsson, úr Biskupstungum og María Jakobsdóttir ættuð frá Aðalvík. Þau kynntust er Þorlákur var vinnumaður að Felli í Biskupstungum og María kaupakona.
Síðan lá leið þeirra til Hafnarfjarðar og Þorlákur fór á sjó. Móðursystir Þorláks bjó á Hverfisgötu 4 og var gift skipstjóra sem Þorlákur fékk vinnu hjá.
Þau settust að í Hafnarfirði. Þau bjuggu víða, fyrst á Krosseyrarveginum, síðan á Hverfisgötunni. Þorlákur, faðir Eyþórs keypti verkamannabússtað á Selvogsgötunni. Sumarið 1936 brugðust síldveiðar við landið svo hann varð að selja íbúðina. Þá fluttu þau út í hraunið, í hús þar sem hvorki var vatn né rafmagn og þar bjuggu þau í sex eða sjö ár. Eyþór átti tvær systur þær Sigríði og Katrínu, sem báðar eru látnar.
Eyþór gekk í Lækjarskóla frá 8-9 ára aldri. Hann gekk með Siggu, systur sinni í skólann sem var allgóður spölur frá heimili þeirra.
Eyþór lýsir búskapnum á æskuheimilinu sem þá tilheyrði Garðabæ. Þar voru kindur, kýr og hestar. Það var heyjað á sumrin en þar sem faðir hans fór alltaf á síldarveiðar á sumrin þá var fenginn kaupamaður til að aðstoða við búskapinn.
Það var sími á Setbergi sem var næsti bær. Þau þurftu að fara þangað til að láta vita ef eitthvað kom uppá. Eyþór segir sögu af konu sem bankaði óvænt uppá hjá þeim og vildi fá að gista.
Bæirnir í kring voru Urriðakot, Setbert og Þórsberg. Reykdalsfjölskyldan átti allt landið. Seinna þegar landsvæðið tilheyrði orðið Hafnarfirði þá fluttu þau húsið þangað og endurbyggðu það.
Í stríðinu var settur Kamping þarna rétt fyrir ofan og yfirtók herinn veginn sem þar lá. Því þurftu þau að fá passa til að mega fara í gegn. Það voru verðir sem gættu þess að enginn færi í gegn nema þeir væru með passa sem sýslumaðurinn gaf út.
Eina tónlistinn sem Eyþór ólst upp við var í útvarpinu. Útvarpið gekk fyrir batteríi sem farið var með inn í Hafnarfjörð í hleðslu. Á meðan batteríið var í hleðslu þá var fjölskyldan útvarpslaus. Eyþór hlustaði helst á danslögin á laugardagskvöldum.
Eyþór var sendur í sveit til föðurbróður síns, Þórarins í Fellskoti. Þar kynntist hann afa sínum og ömmu þeim Guðlaugi Eiríkssyni og Katrínu Þorláksdóttur. Eyþór var mörg sumur í sveitinni og segir hann hér frá samskiptum sínum við hermenn eitt sumarið er hann var á leiðinni í sveitina.
Það voru enginn hljóðfæri í sveitinni. Það voru hinsvegar böll þar sem Eyþór heyrði fyrst eiginlega tónlist. Eiríkur á Bóli, sem var blindur, spilaði á harmonikkuna. Eyþór var svo hrifinn að hann eignaðist harmonikku og var fljótlega farinn að spila í pásum hjá Eiríki í samkomuhúsinu á Vatnsleysu.
Hann kynntist gítarnum fyrst í sveitinni. Gaui á Laugarvöllum kom og spilaði undir hjá Eiríki á Bóli. Gauji notaðist við brotna hárgreiðu við spilamennskuna. Eyþór fór að leggja leið sína að Laugarvöllum þar sem Gaui kenndi honum nokkur grip.
Dóttir manns sem faðir Eyþórs var með á sjónum átti gítar sem hún lánaði honum. Þá byrjaði hann að fikta við gripin sem Gaui hafði kennt honum.  Hann keypti sér fína harmonikku frá Danmörku. Um það leyti var allt að breytast þá voru komnar hljómsveitir.
Eyþór sótti tíma á harmonikkuna hjá Ólafi Péturssyni inn á Njálsgötu þegar hann var 14-15 ára. Hann lærði mikið hjá honum.
Gunnar Ormslev kom og fór að vinna í Apótekinu. Gunnar spilaði á saxofone og kom inn í hljómsveitina sem Eyþór var að böggla saman með þeim Braga á Sjónarhóli, Villa Back og Guðmundi Steingrímssyni. Æfingar fóru fram á loftinu hjá Guðmundi. Síðar komu fleiri í hljómsveitina eins og saxofone leikari og Helgi Gunnarsson sem spilaði á trompet.
Þegar Gunnar kom þá var hann svo flinkur að þeir stofnuðu með honum hljómsveit  þá bættust Gaukurinn og Steini Steingríms í hópinn.
Veturinn 1946-1947 stofnaði Eyþór hljómsveit sem spilaði í mjólkurstöðinni í heilan vetur. Það var á undan KK sem þá var í Ameríku. Í hljómsveitinni voru þeir Bragi Einarsson á klarínett, Guðmundur Vilbergsson spilaði á trompet og harmonikku. Guðmundur á trommur og Eyþór á gítar.
Hljómsveitin spilaði helst lögin sem voru í útvarpinu á þessum tíma.
Eyþór rifjar upp árin þegar herinn kom. Fyrst komu Bretar sem yfirtóku Lækjarskóla og bjuggu virki út um allt sem voru í varðstöðvar. Þegar þýskar könnunarflugvélar flugu yfir reyndu Bretarnir að skjóta þær niður rétt fyrir ofan Ásfjallið.
Það var mikið samneyti við herinn. Hermennirnir komu heim á bæinn til Eyþórs og keyptu mjólk o.fl. Það enginn talaði ensku og segir Eyþór frá spaugilegu atviki þegar þeir óskuðu eftir að kaupa egg af móður hans.
Bretarnir töluðu við Íslendingana sem fengu að fara inn í Braggana þar sem þeir heyrðu sögur, skoðuðu myndir og fengu framandi mat eins og bakaðar baunir og beikon.
Með Ameríkananum komu hljómsveitir. Það voru góðir músíkkantar á Vellinum sem þeir kynntust þegar þeir spiluðu þar með KK. Þegar KK kom var spilað með hinum ýmsu hljómsveitum. Það var mikið að gera á böllum hér og þar.
Þá fóru útlendingarnir að koma. Morávek kom og voru Guðmundur og Eyþór fyrstir til að spila með honum á Hótel Birni í Hafnarfirði. Eyþór lýsir spilamennsku Morávek sem var alvöru músíkkant, með sérsmíðaða harmonikku. Hann var landflótta Tékki í Austurríki sem spilaði á öll hljóðfæri og segir Eyþór frá aðdraganda þess að hann kom til Íslands og færni hans við að leika á öll hljóðfæri.
Morávek var mjög flinkur maður. Hann útsetti hvað sem var og kenndi Guðmundi og Eyþóri hljómana í amerísku lögunum með því að skrifa þá alla niður fyrir þá.
Eyþór fór út til Manchester árið 1950 til að læra á kontrabassa eftir að hafa verið í Tónlistarskólanum hjá Einari Waage. Eyþór hafði þó meiri áhuga á gítarnum en það var hvergi kennt á hann. Í Manchester kynntist hann bassaleikara frá kolanámubænum Barnsley. Þeir bjuggu saman um tíma og segir Eyþór frá þeirri sambúð.
Eyþór byrjaði strax að spila eftir að hann kom til Manchester. Hann kynntist Jack Duarte, lyfjafræðingi sem spilaði á trompet í Jassklúbbnum. Hann bauð Eyþóri að koma í gítarklúbb sem hittist einu sinni í mánuði. Það var í fyrsta sinn sem Eyþór spilaði fyrir alvöru á gítar. Hann segir frá þessum gítarfundum og frama Jack Duarte sem gítartónskáld.
Það var maður á Tröllafossi sem að keypti pick-up sem hægt var að setja á gítarinn sem hann átti.  Hann fékk magnara einhverstaðar frá sem rétt virkaði. Þannig byrjaði Eyþór að spila á gítarinn með hljómsveitum. Fólk kom frá Reykjavík til að dansa í Gúttó í Hafnarfirði. Magnari var kominn til sögunar áður en hann spilaði á mjólkurstöðinni.
KK spilaði einn vetur í mjólkurstöðinni. Svavari Gests og KK varð eitthvað sundurorða og upp úr því fékk Svavar starfið í mjólkurstöðinni og spilaði Eyþór með honum þar 1947-1948.
Það var lítið um að söngvarar væru með hljómsveitum. Hvorki Aage Lorange né Þórir Jónsson, á Borginni voru með söngvara. Seinna komu stelpurnar í Öskubuskunum sem tróðu upp á skemmtunum. Ein af þeim var Sigrún Jónsdóttir, frábær söngkona sem seinna fór með þeim KK til Þýskalands.
Áður en hljómsveitin hélt til Þýskalands höfðu þeir farið til Noregs og Danmerkur. Þeim var vel tekið  í Noregi. Þar spiluðu þeir tvö hálftíma prógramm í útvarpið, í klúbbnum og með norskum tónlistarmönnum sem Eyþór segir frá.
Því næst var haldið til Danmerkur þar sem þau spiluðu m.a. í Damhus Tivolí. Þeir tóku einnig þátt í Lukkeposen sem var frægt lifandi show í stórum útvarpssal. Eyþór segir frá þessu.
Eyþór rifjar upp hvernig það kom til að þeir fóru að spila í Þýskalandi. Það var amerískur umboðsmaður í Þýskalandi sem var alltaf að ráða hljómsveitir sem átti milligönguna af því. Þeir byrjuðu að spila í Mannheim og segir Eyþór frá spilamennskunni í þýskalandi.
Þeim gekk vel að fá vinnu þarna því þeir spiluðu meira ameríska tónlist sem ekki var eins þekkt í Þýskalandi. Það gekk á ýmsu hjá hljómsveitarmeðlimum því eiginkonurnar sem voru á Íslandi vildu fá mennina sína heim. Úr varð að Jón Sigurðsson og Kristján Magnússon fóru heim en í stað þeirra komu Árni Elvar og Bjössi, bassi svo þeir héldu áfram að spila.
Eyþór segir þá hafa getað verið mun lengur í Þýskalandi að spila. Það var þó erfitt að vera svona lengi erlendis. Hann segir frá veru þeirra í Mannheim en borgin var þurrkuð út í stríðinu og síðan endurbyggð. Þeir gengu m.a. yfir sundurskotna brú árinnar Rín. Það voru komnar fínar hljóðfærabúðir sem þeir reyndu að kaupa sér hljóðfæri í.
Árið 1955 spiluðu þeir í útvarpið hjá Könunum. Þetta voru allt beinar útsendingar.
Eyþór og Gunni Sveins vildu verða sjálfstæðari og hættu því í KK til að stofna sitthvora hljómsveitina. Eyþór stofnaði Oreon og Gunni stofnaði Tríó sem spilaði á Röðli.
Eyþór fór með Oreon til Þýskalands til sama umboðsmanns og KK hafði verið með. Eftir nokkra mánaða dvöl í Þýskalandi fengu þeir tilboð um að fara til Marokkó að spila. Þeir Andrés Ingólfsson á saxofóne, Sigurður Guðmundsson á píanó, Sigþór Ingólfsson á bassa, Eyþór og Guðjón Ingi á trommur voru með í för. Þeir dvöldu í Marokkó í marga mánuði.
Eyþór segir frá ferðalaginu með herflugvél frá Þýskalandi til Casablanca í Marokkó en þeir ferðuðust um á Military orders þannig að þeir voru eins og hermenn.
Eyþór segir frá upp dópuðum bílstóra sem tók á móti hljómsveitinni við komuna til Casablanca. Þeir komust inn á base-inn og í hús. Þeim var úthlutað teppum og rúmfötum. Þeir bjuggu um rúmin sín sjálfir og urðu hermennirnir að kenna þeim að búa um rúmin eftir kúnstarinnar herreglum.
Þeir áttu að fljúga á milli base-a og spila í eina viku á hverjum stað. Það var alveg rosalega heitt þarna og átti einn hljómsveitarmeðlimurinn eftir að fá að finna fyrir því. Eyþór segir frá.
Eyþór segir frá því þegar þeir voru að spila í Karlsruhe í Þýskalandi. Þar höfðu þeir keypt bíl og sá Sigurður um aksturinn. Þeir fóru eina nóttina frá Karlsruhe til Bonn til að að fá vegabréfsáritun til Marokkó. Þeir fengu réttu stimplana í franska sendiráðinu og brunuðu aftur til Karlsruhe þar sem þeir fóru beint á svið án þess að hafa sofið neitt.
Þetta voru mismunandi klúbbar sem þeir spiluðu í fyrir herinn veturinn 1956-1957. Þeir fengu 30 dollara á viku fyrir kostnaði en svo þegar þeir komu til Frankfurt þá fengu þeir alla summuna borgaða. Þá gátu þeir keypt sér hljóðfæri og eitthvað til að taka með til Íslands.
Eyþór fór fyrst til Spánar árið 1953 til að læra gítarleik hjá Daniel Fortea. Daniel Fortea hafði ferðast út um allan heim sem konsertspilari. Eyþór sem bjó heima hjá honum í Madrid, var með sænskan Hagström gítar sem Daniel bara hristi hausinn yfir og lánaði honum gítar sem hann átti að æfa sig á. Eyþór segir frá.
Daniel Fortea sem var rúmlega áttræður, veiktist og þá var Eyþóri ráðlagt að finna sér annan kennara. Eyþór leigði sér herbergi og Quintin Esquembre kenndi honum út tímabilið árið 1953.
Steinn Steinar kom til Madrid en hann var að heimsækja Þorstein (Stenna), málara. Knútur frá Siglufirði var þarna að læra spænsku. Hann og Eyþór fóru saman í ferðalag til Sevillia. Þegar Eyþór kom síðan aftur til Madrid þá var Steinn að fara til Parísar og Eyþór slóst í för með honum og konunni hans. Eyþór lýsir lestarferðinni til Parísar.
Við komuna til Parísar fór Eyþór strax að hitta vin sinn, Snorra Þorvaldsson sem var að læra á fiðlu í París og aðstoðaði hann Eyþór við að finna gistingu. Snorri átti mótorhjól og ók með Eyþór um alla París í þær tvær vikur sem hann dvaldi þarna. Snorri varð síðar konsertmeistari í Gautaborg. Pétur Þorvaldsson bróðir Snorra var sellóleikari í sinfóníuhljómsveit Íslands.
Steinn Steinar var þægilegur í umgengni og vildi ekki gera mikið úr skáldskapnum. Steinn og Eyþór áttu síðar eftir að hittast á Hressingarskálanum.
Hressingarskálinn var aðalstaðurinn á þessum tíma til að drekka kaffi og fá sér vöfflur. Jón Ásgeirsson og hljóðfæraleikararnir vöndu komur sínar þangað. Það var fyrir tilstuðlan Jóns Ásgeirssonar, tónskálds fór Eyþór að læra hjá Urbancic.
Eyþór nam hjá Urbancic í mörg ár.  Urbancic kenndi ýmist heima hjá sér eða í herbergi rétt hjá Skólabrú. Kennslan fólst í því að undirbúa nemendur undir að búa til fúgur, inventionir o.fl. Magnús Pétursson og Guðmundur Norðdal námu einnig hjá Urbancic sem fór með þá í Kaþólsku kirkjuna og spilaði fyrir þá orgelverk sem var mjög fróðlegt enda var hann alveg framúrskarandi tónlistarmaður.
Þetta snérist um það að búa til verk og skrifa einhverja musik. Eyþór á enn bækurnar sem notast var við. Í þá daga höfðu menn áhuga fyrir því að læra. Nú er enginn áhugi fyrir að læra tónlist þannig að það vantar theoríuna sem er á bak við hljómfræðina.
Árin eftir Spánarferðina og fundina á Hressó hélt Eyþór áfram að spila. Hann var alltaf að reyna að vinna sér inn pening til að geta farið út aftur til að læra meira.
Haldið var til Akureyrar að spila í grúbbu með þeim Gunnari Reyni Sveinssyni, Andrési Ingólfssyni, Hjörleifi Björnssyni og Eyþóri. Þeir spiluðu á hótel KEA á hverju kvöldi en um helgar fóru þeir um allar sveitir til að spila. Eyþór á góðar minningar frá sumrinu ´57 sem hann segir frá.
Um haustið 1957 byrjaði Eyþór aftur með hljómsveitina Orion í Breiðfirðingabúð. Í upphafi árs 1958 fór hann aftur til Barcelona á Spáni til að læra gítarleik hjá  Garciano Tarragó. Eyþór lýsir ævintýralegu ferðalagi með nokkrum Íslendingum.
Magnús var með fína ameríska bílinn sinn sem hann lagði fyrir utan hermálaráðuneytið en annar eins bíll hafði varla sést á Spáni. Eyþór varð að bíða eftir að kennarinn kæmi úr fríi svo  þeir félagarnir ákváðu að fara í ferðalag til suður Spánar. Eyþór lýsir ferðalaginu sem þeir hittu m.a. Steinþór Sigurðsson, leiktjaldamálara hjá Iðnó.
Félagar Eyþórs á ferðalaginu um Spán voru þeir, Kristján sem síðar var með Kynnisferðir. Hinn var bóndi í Eyjafirði og svo Magnús Kristjánsson sem var sonur Kristjáns Magnússonar, listmálara frá Ísafirði.
Eyþór dvaldi meira og minna á Barcelona á Spáni frá árunum 1958-1966. Hann var ýmist í námi eða að spila. Magnús hafði kynnt hann fyrir hollenskum hljómsveitarstjóra og bassaleikara. Svo fór hann að spila á bassa og gítar í Embassador Club á Costa Brava þar sem honum var boðin sumarvinna. Hann spilaði á þriggja strengja bassa.
Um sumarið spilaði hann á þriggja strengja bassa en fór einu sinni í viku í gítartíma til Barcelona. Til þess að geta sótt tímana þá fór hann fram og til baka á mótorhjóli frá Costa Brava, um 130 km leið.
Eyþór kynntist fólki sem hann dvaldi af og til hjá og lærði spænskuna. Þar kynntist hann fyrst núverandi eiginkonu sinni.
Eyþór kom heim til Íslands 1959 og fór að spila með hljómsveit Svavars Gests í Sjálfstæðishúsinu. Eyþór kenndi þeim ýmis skemmtiatriði sem hann hafði lært á Spáni og var Svavar lunkinn við að yfirfæra þetta á Ísland. Þeir byrjuðu með þáttinn Nefndu lagið hjá RÚV og spiluðu út um allt land.
Eyþór lýsir ferðalaginu til Spánar en ferðin hófst alltaf með Gullfossi.
Árið 1966 voru þau að spila á Mallorca en komu heim vegna andláts tengdamóðir hans.
Eyþór segir frá fyrri eiginkonu sinni, Sigurbjörgu Sveinsdóttur sem hann kynntist  í Sjálfstæðishúsinu árið 1959. Sigurbjörg byrjaði að syngja með hljómsveitinni á Spáni síðan í Leikhúskjallaranum og á Röðli.
Eyþór segir frá hljómsveit sem spiluðu með sem og hljómplötu sem hann gaf út en hefur nú glatast.
Eyþór nefnir alla þá fjölmörgu staði á Spáni sem þeir spiluðu á, árið 1966. Þeir spiluðu á Títos sem var aðal klúbburinn í Evrópu. Þeir fóru út í mars og æfðu heima hjá hljómsveitarstjóranum Petros S. Þeir spiluðu undir hjá artistunum sem tróðu upp og fyrir dansi svona tvær til þrjár syrpur á kvöldi. Eyþór segir frá spilamennskunni og með hverjum hann tróð upp.
Svo kom Eyþór heim og var að spila í Sjálfstæðishúsinu, Leikhúskjallaranum og á Röðli. Svo kom bítlaæðið og þá breyttist nú mikið.
Sigurbjörg fór í flugfreyjustarfið og sinnti því í 11 ár. Starfinu fylgdu m.a. þau hlunnindi að hún fékk frímiða hjá flugfélaginu Panam. Þau ferðuðust um alla suður Ameríku og segir Eyþór frá því.
Eyþóri fannst skemmtilegast að fara til Argentínu sem var mesta menningarlandið í suður Ameríku á þeim tíma. Á ferðalaginu hittu þau Ingimund Guðmundsson sem hafði farið frá Þýskalandi til Argentínu árið 1922. Eyþór segir frá honum.
Eyþór lýsir vonbrigðum sínum með borgina Rio de Janeiro í Brasilíu sem var ekki öll þar sem hún var séð í bíómyndunum.
Sveinn, sonur þeirra var 6 ára þegar hann fór með þeim til suður Ameríku. Eyþór segir frá ferðalaginu.
Í Mexíkó hittu þau Vífil Árnason, arkitekt. Eyþór lýsir götunni sem þau ætluðu að ganga til að fara í heimsókn til Vífils.
Í hljómsveit Eyþórs Þorlákssonar sem spilaði í Leikhúskjallaranum voru þeir Sigurður Guðmundsson á píanó,  Trausti Torberg á bassa, Eyþór á gítar og Sigurbjörg, söng. Þau spiluðu saman í tvo eða þrjá vetur.
Á gamlárskvöld 1961 tilkynnti KK eiginkonu sinni að hann væri hættur að spila. Eyþór var ekki á landinu þegar þetta var.
Eyþór fór síðan að spila með Hauk Morteins í átthagasalnum á hótel Sögu. Þá voru það mest lokuð samkvæmi. Þarna spiluðu þeir í mörg ár. Á sumrin leystu þeir Ragga Bjarna af í Súlnasalnum meðan hann fór í Sumargleðina.
Þegar þeir leystu Ragga Bjarna af, þá fengu þeir að bæta nokkrum blásurum í hljómsveitina. Eyþór útsetti allt fyrir þá en veit í dag ekkert hvað varð um þessar útsetningar. Eyþór segir nánar frá þessu.
Blásararnir í hljómsveitinni voru þeir, Andrés, Gunnar Ormslev, Sæbjörn og Kristján sem léku á trompet. Guðmundur Emilsson á píanó og Guðmundur Steingrímsson á trommur og Höskuldur eða einhver á bassa.
Síðasta ballið sem Eyþór spilaði á var með Hauk Morteins í Naustinu árið 1991. Þá veikist Haukur. Þeir voru búnir að spila saman í fjöldamörg ár í Súlnasalnum, á Naustinu og á Borginni.
Eyþór kenndi í mörgum Tónlistarskólum. Svo minnkaði hann við sig og kenndi eingöngu í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Hann gaf einnig út mikið kennsluefni sem hann síðar endaði með að vinna allt upp á nýtt til að geta haft það aðgengilegt á vefnum. Eyþór segir frá þessu.
Eftir mikla vinnu varð kennsluefnið aðgengilegt á netinu. Eyþór hafði bara hugsað þetta allt saman frítt fyrir íslendinga en fljótlega fóru að berast fyrirspurnir allsstaðar að úr heiminum. Hann kynntist einnig mönnum héðan og þaðan sem voru að vinna samskonar vinnu.
Eyþór er búin að prufa flest öll forrit fyrir tónlist sem til eru á markaðnum. Í gítartónlist er svo mikið af merkjum sem ekki er að finna hjá öðrum hljóðfærum því er svo erfitt að finna rétta forritið. Eyþór segir frá erfiðleikunum við að finna forrit og hvernig síuppfærður tölvubúnaður neitar að taka við forritunum.
01.07.2014
Eyþór Þorláksson
Bjarki Sveinbjörnsson
Viðtöl Bjarka Sveinbjörnssonar

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 10.11.2015