„Maður ánetjast kennslunni“

<p>Á þessu ári fagnar einn virtasti fiðluleikari landsins og fyrrum fyrsti konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands til tæpra fjörutíu ára, Guðný Guðmundsdóttir, fjörutíu ára kennsluafmæli. Guðrún Gunnarsdóttir ræddi við Guðnýju á þessum tímamótum.</p> <p>Á ferlinum hefur Guðný útskrifað marga tugi nemenda sem margir hafa skarað fram úr á sínu sviði, unnið til virtra verðlauna og staðið í eldlínunni á tónleikasviði hérlendis og erlendis.</p> <p>Í tilefni tímamótanna hefur Guðný fengið flesta af núverandi og fyrrverandi nemendum sínum til liðs við sig á virúósa tónleikum sem haldnir verða í Seltjarnarneskirkju sunnudaginn 21. desember kl. 16. Á efnisskránni er m.a. að finna verk eftir 15 ára nemanda Guðnýjar og sónötu fyrir tvær fiðlur eftir Prokofiev sem elsti og yngsti nemendur hennar spila.</p> <p>Verkin á tónleikunum ná aftur til tíma barrokksins, en hápunktur tónleikanna er flutningur á hinni stórbrotnu Ciaconnu fyrir einleiksfiðlu eftir Johann Sebastian Bach. Fyrrverandi nemandi Guðnýjar, Bjarni Frímann Bjarnason, hefur útsett verkið fyrir fiðluhóp ásamt víólum í tilefni dagsins. Guðný mun taka þátt í flutningi með nemendum sínum í sumum verkanna, en auk þess koma fram aðrir gestahljóðfæraleikarar. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.</p> <p>Að sögn Guðnýjar er það ástríðan fyrir kennslunni sem hefur knúð hana áfram allan þennan tíma. „Maður ánetjast kennslunni og ég hef aldrei kennt mér til leiða. Auk þess sem ég hef verið svo lánsöm að nemendur mínir hafa nánast allir helgað sig fiðlunni og ekki hætt hjá mér,“ segir hún.</p> <p>Guðný Guðmundsdóttir hóf kennslustörf haustið 1974, sama ár og hún tók við starfi 1. konsertmeistara í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún hefur kennt nær óslitið við Tónlistarskólann í Reykjavík fram til þessa og verið yfirmaður fiðludeildar Listaháskóla Íslands frá stofnun tónlistardeildarinnar í byrjun aldarinnar.</p> <p>Hún kenndi einnig um tíma lengra komnum nemendum við Allegro Suzuki skólann í Reykjavík. Guðný hefur kennt víða erlendis á námskeiðum og alþjóðlegum sumarhátíðum. Á árinu sem er að líða var hún m.a. gestakennari við Manhattan School of Music, Hartt College of Music og Chicago Institude auk þess að kenna á hinni virtu alþjóðlegu tónlistarhátíð Astona í Sviss, sl. sumar.</p> <p>Snemma á kennsluferlinum beitti Guðný sér fyrir því að framúrskarandi nemendur fengju tækifæri til þess að leika einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Síðan árið 1979 hafa allt að fjórir ungir einleikarar og einsöngvarar komið fram með hljómsveitinni árlega að undangenginni keppni. Vel á þriðja tug nemenda Guðnýjar hafa unnið í þessari keppni og komið fram sem einleikarar með hljómsveitinni. Hún hefur útskrifað marga tugi nemenda frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og einnig hin síðari ár frá Listaháskóla Íslands. Auk útskriftarnema hefur fjöldinn af nemendum notið kennslu hennar um lengri eða skemmri tíma.</p> <p>Guðný hóf fiðlunám 6 ára gömul, fyrst hjá Ernu Másdóttur við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Tveimur árum síðar varð Björn Ólafsson þáverandi konsertmeistari kennari hennar allt þar til hún hóf nám við Eastman tónlistarháskólann í Rochester í New York. Hún útskrifaðist þaðan með bakkalárgráðu með sérstakri viðurkenningu fyrir einleik. Síðan nam hún eitt ár við Royal College of Music í London og lauk síðan Mastersgráðu við Juilliard skólann í New York nokkrum dögum áður en hún vann prufuspil fyrir 1. konsertmeistarastöðuna hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem hún gegndi til októberloka árið 2010.</p> <p align="right">Mannlegi þátturinn - Ríkisútvarpið 18. desember 2014 - af ruv.is.</p>
18.12.2014
Guðný Guðmundsdóttir
Guðrún Gunnarsdóttir
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 19.12.2014