Minningar úr Svarfaðardal

Viðtalið var tekið í Tónlistarsafni Íslands
Æviatriði - segir frá heimili sínu þegar hann var ungur. Segir frá hjónum sem bjuggu á bænum um tíma og voru vinnumenn.
Rifjar upp fyrstu minningar sínar á heimilinu. Man fyrst eftir sér tveggja ára gamall. Lýsir því þegar torf var rist með torfljá - lýsir ljánum og hvernig honum var beitt. Segir frá hvernig tofið var þurrkað og lagt. Lýstir hvernig hey var sett upp úr böggum. Baggarnir voru reiddir heim á hestum. Þurr þaka var sett undir klakkinn til að verja hrossið nuddi. Lýsir hvernig böggum var komið fyrir á hestinum og reiddir heim í lest. Rifjar upp þegar hann sem barn datt ofan í dý og sökk upp að höku.
Segir frá þegar hann fyrst gekk í skóla í sveitinni. Segir frá mönnum sem fengnir voru til að kenna börnum á rúmgóðum bæjum. Segir frá byggingum í Svarfaðardal og breytingum á þeim. Burstir voru rifnar og byggð framhús. Lýsir gamla og nýja eldhúsinu. Segir frá baðstofum á bæjum og hvernig hún var byggð og klædd innan. Segir frá „húsum“ sem voru í báðum endum baðstofunnar. Frambærinn var byggður úr timbri og á lofti hans var geymd kornvara - kölluð suður-loft og norður-loft. Þá var gestastofa sem var máluð en gegnt henni smíðahús. Þá voru skúrar þar sem mór var geymdur eða þurrkað tað annarsvegar og hinsvegar súrmatur.
Segir frá mat sem borðaður var í Svarfaðardal. Jarðir voru landlitlar en aðgangur að sjó. Rennandi vatn var í torfbænum þar sem hann ólst upp. Alltaf fékkst nýr fiskur. Vöruskipti voru algeng við Dalvíkurbúa á fisk og kjöti. Bændur áttu oft báta eða part í bát. Róið var vor og haust. Fiskurinn var saltaður og siginn auk þess að borða hann nýjan. Harðfiskur var algengur. Segir frá Júlíusi afa sínum sem var formaður á bát. Kunni vel til verka að hlaða upp torfveggi. Sláturhús var á Dalvík. Áður var allt sláturfé rekið til Akureyrar, 42ja kílómetra leið. Auk þess var slátrað heima 20-30 fjár. Rafmagn kom í Svarfaðardal um 1955 og sími um svipað leyti. Matur var súrsaður og saltaður í stórar eikartunnur sem geymdar voru í búrinu. Móðir hans steikti æ nýtt og súrt slátur og sykraði. Þindar voru notaðar í lundabagga o.fl.
Aldrei var borðað pestarkjöt í Svarfaðardal. Segir frá dauðum lömbum í haganum. Segir frá fyrri og seinni slátrun á Dalvík í tengslum við göngur.
Nokkuð var um kúabúskap, einkum til heimabrúks. Algengt var að 10-12 manns var í heimili, stundum fleira. Út úr stærri býlum voru kotbýli. Kringum bæinn Tjörn voru fjögur kotbýli á árum áður. Kotbýlingar unnu gjarnan fyrir bændur á aðal bænum.
Bændur í Svarfaðardal bundust samtökum um að leggja veg fram dalinn. Lýsir þessu samstarfi bændanna og hvernig að lagningunni og malartekju var staðið. Man eftir að hestakerrur voru notaðar við vegalagningu. Vegurinn var hlaðinn upp með torfi og malarlag lagt ofan á. Um 1 km var lagður á sumri. Lýsir vegalagningunni nánar.
Lendingaraðstaða fyrir báta var léleg. Engin höfn var, en litlar bryggjur. Á Dalvík var höfnin opin fyrir hafi. Mörg slys urðu við að lenda í slæmu veðri. Segir frá mannskaða til sjós árið 1887.
Farið var að kenna söng þegar heimavistarskólinn kom. Tónlistarskólinn á Dalvík var þá kominn og kennari kom frá Dalvík fram í Húsabakkaskóla en skólinn starfaði til 2005. Jeppar komu 1944, fyrst herjeppar og síðar Willis jeppar og voru þeir m.a. notaðir til að keyra börnin í skólann. Um 1960 komu skólabílar. Kennt var á píanó í skólanum og blokkflautur. Síðar var kennt á fiðlu. Kennarar komu einkum frá Austantjaldslöndunum.
Nefni hákarlaveiðar sem voru stundaðar. Afi hans var hákarlaformaður. Bátarnir voru stærri og hægt var að beita seglum. Segir frá sjóslysum í tengslum við hákarlaveiðar í lok 19. aldar. Lifrin var hirt, brædd og seld sem ljósmeti til útlanda.
Gekk fyrst í skóla í skólahúsið sem einnig var þinghús staðarins, kallað Þinghúsið að Grund. Skólanum var skipt upp í yngri og eldri deild. Í yngri deild voru 9 og 10 ára börn en í eldri deild 11, 12 og 13 ára gömul. Luku fullnaðarprófi 1946 og var þá fermdur. Síðar var farið að kenna eldri deildum sem tóku við af barnaskólanum og lauk með unglingaprófi. Lýsir þessari kennslu. Við henni tók svo heimavistarskóli sem tekinn var í notkun 1955 í Svarfaðardal.
Farið var að kenna söng þegar heimavistarskólinn kom. Tónlistarskólinn á Dalvík var þá kominn og kennari kom frá Dalvík fram í Húsabakkaskóla en skólinn starfaði til 2005. Jeppar komu 1944, fyrst herjeppar og síðar Willis jeppar og voru þeir m.a. notaðir til að keyra börnin í skólann. Um 1960 komu skólabílar. Kennt var á píanó í skólanum og blokkflautur. Síðar var kennt á fiðlu. Kennarar komu einkum frá Austantjaldslöndunum.
Mikið sönglíf hefur alla tíð verið í Svarfaðardal. Ungmennafélög voru stofnuð fyrir 1920 á Dalvík og síðar í sveitinni 1922 og áfram. Ungmennafélagar sungu mikið. Aðalkennarinn var Þórarinn Kr. Eldjárn, var góður söngmaður. Hann byrjaði á söng á morgnana og alltaf sunginn einn sálmur. Lýsir kennslu Þórarins. Kennt var 6 daga vikunnar. Lýsir ungmennafélagshúsinu sem byggt var við skólahúsið og söng í því. Barnakórar voru ekki fyrr en í Húsabakkaskóla síðustu starfsár hans.
Venjan var að einn kirkjukór var fyrir alla sveitina, nokkuð mannmargur. Þórarinn og faðir hans sungu bassa í kirkjukórnum í 60 ár samfellt. Segir frá kirkjunum og býlum við ströndina. Tryggvi Kristinsson stjórnaðir kirkjukórnum um tíma svo og stærri samkórum sem héldu uppi söng.
Mikil leikstarfsemi var í Svarfaðardal. Fyrsta skólahúsið var byggt þar sem dalirnir mætast, kallast Tungur, byggt fyrir aldamótin 1900. Þar voru settir upp sjónleikir upp úr aldamótunum. Síðar var skólahúsið rifið niður og fært að Grund og stytti það leiðina fyrir Dalvíkinga. Lýsir ungmennafélagshúsinu og notkun þess. Nefnir leikverk sem sýnd voru, Upp til selja og fleiri. Skuggasveinn var leikinn á Dalvík, en þar var stærra hús sem kallað er Ungó. Steingrímur Þorsteinsson var lærður leiktjaldasmiður og hann málaði leiktjöld. Sigurður Jónsson, SIggi kaupmaður var aðalmaðurinn í gerð búninga og sminka. Þá nefnir hann góða leikara.
Nefnir ýmsan félagsskap sem starfaði á svæðinu. Segir frá fyrsta rafmagninu á Dalvík.
Rifjar upp sínar fyrstu minningar um útvarpið og hverjir áttu slík tæki. Útvörp kom víða á bæi fram undir 1940. Þetta voru rafhlöðutæki sem knúin voru með blautbattaríum sem þurfti að hlaða. Hlaðið var á bæjum sem höfðu rafstöðvar. Síðar komu þurrabattarí. Helst var hlustað á fréttir á kvöldin og veðurfréttir á morgnana, einnig útvarpssögur. Man eftir þegar Helgi Hjörvar las Bör Börsson. Lýsir því þegar fólk hlustaði á útvarp og loftneti sem sett var upp.
Dansleikir voru í skólahúsinu. Einn harmonikuleikari, Davíð Sigurðsson trésmiður, var og sá sem mest lék fyrir dansi, lék á stóra hnappaharmoniku. Kvenfélagið stóð fyrir ýmsum samkomum í sveitinni, lýsir þeim. Kvenfélagið var með barnadeild sem sá um jólatrésskemmtanir. Lýsir dansleikjum á bæjum.
Danshljómsveitir byrjuðu þannig að tveir léku á harmonikku og síðar tromma með. Menn lærðu af danslögum í útvarpi og af grammófónum. Stundum var dansað eftir þeim í heimahúsum. Danshljómsveitir voru harmonikka, trommur og blásturshjóðfæri.
Man eftir karlakór þegar hann var í barnaskóla. 1944 stofnaði sveitin karlakór. Sigurður Ólafsson bóndi á Syðra-Holti hafði lært á orgel í Reykjavík og kórstjórn. Hann stjórnar kórnum sem fékk heitið Karlakór Svarfdæla. Segir nánar frá kórnum og sönglífi í sveitinni. Um 1960 stjórnaði Stefán Bjarman kennari kórnum sem nú hét Karlakórinn Sindri. Síðar verður til Karlakór Dalvíkur og var Gestur Hjörleifsson stjórnandi hans. Kári Gestsson tók við af föður sínum. Síðar kom Guðmundur Óli hljómsveitarstjóri og stjórnaði kórinn.
Ýmis starfsemi blómstrar í fámenninu og byggir á framtaki einstaklingsins. Starfsemi leggst gjarnan niður ef þeir flytja eða falla frá. Möguleikar jukust við komu tónlistarskólans. Nú hafa sveitarfélögin verið sameinuð. Menningarlífið hefur breyst. Ungmennafélögin lögðust niður eða voru sameinuð við fólksfækkun í sveitinni. Áður voru um 800 manns en nú um 120. Alltaf er haldinn réttardansleikur á haustin. Nefnir nokkur félög sem störfuðu í sveitinni og sameiningu jarða og bústofn.
30.10.2013
Björn Daníelsson
Bjarki Sveinbjörnsson
Viðtöl Bjarka Sveinbjörnssonar

Uppfært 12.08.2014