Hljómsveitin varð líklega til 1957 sem Plúdó; nafinu var breytt í Lúdó upp úr 1960 (sjá hér neðar). Upphaflegir meðlimir voru Elfar Berg, Berti Möller, Hans Jensson, Hans Kragh og svo Gunnar Kvaran. Stefán Jónsson gekk til liðs við sveitina 1958 aðeins 16 ára gamall. Berti og Gunnar hættu fljótlega en í stað þeirra komu Ólafur Gunnarsson og Sigurður Baldursson:

Þarna vorum við að ná fótfestu sem danshljómsveit og rokkið í hámarki árin 1959-60. KK sextettinn var á toppnum og við fórum með KK á Hótel Hveragerði, eitt vinsælasta húsið fyrir austan fjall í þá daga. Aðalkeppinautur KK var þá hljómsveit Björns R. Einarssonar með Ragnar Bjarnason sem söngvara. Sveitabransinn í gamla daga var mjög harður. Söngvarar með KK voru Ellý Vilhjálms og Þórir Roff. Við vorum kynntir þarna í Hveragerði og spiluðum hluta af dansleik og fengum fínar undirtektir. Þá var Pétur Guðjónsson rakari umboðsmaður KK og honum til aðstoðar var Gulli Bergmann. Ekki löngu síðar kom Kristján heitinn í Selfossbíói að máli við okkur og spurði hvort við vildum ekki spila hjá honum og við vorum alveg til í það. ...

Í kringum 1960 tóku ungir athafnamennn við rekstrinum, annar þeirra var Þorsteinn Viggósson. Þeir breyttu staðnum og kölluðu hann Storkklúbbinn og þá er Plútó ráðin í neðri sal en hljómsveit Finns heitins Eydals og Helena voru í efri sal. Þarna var hljómsveitin kvintett en við ákváðum að bæta óðrum saxófónleikara við og fengum Andrés heitinn Ingólfsson, sem þá var nýkominn heim frá námi í Bandaríkjunum, til liðs við okkur. Það var mikill uppgangur á staðnum um þetta leyti og þarna komu fram erlendir skemmtikraftar. Aðsóknin var slík að það voru þrjú til fjögur hundruð matargestir á mánudegi ekkert síður en á föstudegi eða laugardegi og við vorum með alls konar músík þó við værum auðvitað aðallega rokkarar. ...

Á þessu tímabili gerðist það að til varð félag eða fyrirtæki hér í bænum sem hét silfurgerðin Plútó. Hann kom að máli við okkur eigandi fyrirtækisins og var óhress yfir að við notuðum þetta nafn og taldi sig eiga einkarétt á nafninu og það gat vel hafa verið rétt hjá manninum. Þá breyttum við nafninu í Plúdó sextett. En hann var ekki ánægður með þá niðurstöðu og fór í mál við okkur og málið endaði í hæstarétti. Þar vorum við dæmdir til að leggja niður nafnið. Þá ákváðum við að taka P framan af og kölluðum hljómsveitina upp frá því Lúdó. Þrátt fyrir að það væri skrifað með d en ekki t.

Þeir voru engum líkir. Morgunblaðið. 26. janúar 1997, bls. B8

Í Morgunblaðsgrein 29. ágúst 1999 er fjallað um tónlistarveislu á skemmtistaðnum Broadway í tilefni aldamóta. Þar er í knöppum pistli fjallað um feril Lúdó; sagt að meðlimir hafi alls verið 23 og böllin um 5000.

Meðlimir

Nafn Staða Frá Til
Baldur Már Arngrímsson Gítarleikari
Berti Möller Gítarleikari 1957
Gunnar Bernburg Bassaleikari 1967
Gunnar Kvaran Kontrabassaleikari 1957 1959
Rúnar Georgsson Saxófónleikari
Stefán Jónsson Söngvari 1958

Skjöl

Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 28.09.2017