Savanna tríóið Þjóðlagasveit

Troels er upphafsmaður tríósins. Hann var að æfa upp skemmtiatriði fyrir nemendamót Verzlunarskólans veturinn 1961 og hafði safnað saman nokkrum strákum til að spila og syngja amerísk þjóðlög. Troels hafði þá kynnst tónlist The Kingston Trio. Guðjón var í þessum hópi. Hann vissi af því að ég átti forláta Gibson gítar sem ég hafði keypt og var ofan af Velli. Hann fékk mig á æfingu og ég tók þátt í þessu atriði á nemendamótinu. Það hét í efnisskránni „Sjö piltar leika og syngja“. Við vorum klæddir gallabuxum og köflóttum skyrtum með kúrekehatta og á sviðinu var gervi-varðeldur, hnakkar ogt beisli. Atriðið þótti takast vel.

Skömmu síðar fékk ég Þóri Baldursson, sem var sessunautur minn í MR, með á æfingu í Versló. Það skipti engum togum að Þórir var tekinn inn í grúppuna og fimm guttar reknir. Ég hef oft nefnt þetta sem einfalt dæmi um mátt Þóris Baldurssonar á tónlistarsviðinu, hann er minnst fimm manna maki hvar sem hann kemur. Fljótlega tók Þórir yfir tónlistarlega útfærslu laganna með útsetningum sínum og eigin lagasmíðum þegar fram í sótti.

Við innréttuðum æfingahúsnæði í þjóðlegum stíl í kjallara spunaverksmiðju í Kópavogi, sem við kölluðum Ánanaust, og þar var æft 3-4 sinnum í viku. Þar var aðstaða til að brasa sér egg og bacon, hita kaffi, hlusta á plötur og geyma hljóðfærin. Þórir skrifaði útsetningarnar út og lagði nótnablöðin fyrir mannskapinn á æfingum. Smám saman lærðu menn að fylgja litlu, svörtu punktunum upp og niður og lærðu sínar raddir. Enn þann dag í dag getum við sótt í minniskortin og raulað gömlu lögin að mestu eins og gert var í den.

Troels hélt svo áfram þjóðlagasöng eftir að Savanna tríóið hætti. Þegar Leikfélag Reykjavíkur setti upp leikrit Jónasar Árnasonar „Þið munið hann Jörund“ var gert ráð fyrir söngflokki sem hélt til á palli í horni salarins og brast í söng af og til. Þau Edda Þórarinsdóttir leikkona, Helgi R. Einarsson og Troels Bendtsen voru ráðin í hlutverk þessara þriggja kráarsöngvara og til varð tríóið „Þrjú á palli“. Gefin var út plata með lögunum úr „Jörundi“ og þar með hófst merkilegt og gifturíkt samstarf þeirra og Jónasar Árnasonar textahöfundar.

Guðjón Margeirsson var fyrsti bassaleikari Savanna tríósins. Ég hafði leikið með honum í hljómsveitunum „Fimm í fullu fjöri“ 1959, Diskó-sextett 1960 og fleiri böndum áður en Savanna tríóið varð til. Guðjón átti sinn þátt í því að tengja mig við Troels Bendtsen því þeir voru saman í Versló. Guðjón er verslunarmaður, bróðir hans var Ingólfur Margeirsson blaðamaður og systir hans er Lilja, sem gift var Flosa Ólafssyni leikara. Guðjón býr á Seltjarnarnesi.

Gunnar Sigurðsson tók við bassanum af Guðjóni fljótlega. Gunnar er yngri bróðir Jóns bassa Sigurðssonar og byrjaði snemma að spila í hljómsveitum, bæði á gítar og bassa.

Björn G. Björnsson 14. júní 2014.


... Savanna tríóið er eitt vinsælasta skemmtiatriði sem komið hefur fram hér á landi, varla er til sá staður sem þeir félagar spiluðu ekki og sungu fyrir landann á sjöunda áratugnum og plötur þeirra seldust í stórum upplögum. Upphafið má rekja til skólaskemmtunar veturinn 1961 og vinsælda í útvarpsþáttum 1962, en á nýársdag 1963 kom Savanna tríóið fram sem fullburða skemmtiatriði í rauðum silkiskyrtum með splunkunýja gítara og vandaða efnisskrá.

Fyrsta litla platan kom út í júní 1963 og önnur fylgdi í kjölfarið vorið 1964 og fyrsta LP-platan í nóvember sama ár. Í apríl 1965 var Savanna tríóið í London og kom fram í sjónvarpsþætti Magnúsar Magnússonar, Tonight Show í BBC, fyrir 22 milljónir áhorfenda. Höfðu þarlendir á orði að líklega myndi þjóðlagabylgja taka við af bítlinu sem þá var í algleymingi. „Fyrri platan var góð – þessi er betri“ sagði Svavar Gests þegar önnur LP-plata Savanna tríósins kom út í október 1965. Hún var hljóðrituð í útvarpssal við Skúlagötu, eins og sú fyrri, og henni var afar vel tekið.

Þegar íslenskt sjónvarp hóf starfsemi haustið 1966 var Savanna tríóið ráðið til að annast fyrstu skemmtiþættina. Tríóið kom fram á opnunarkvöldinu 30. september og fjórir aðrir þættir voru gerðir í upphafi. Sjötti þátturinn var svo gerður 1974 en þar gefur að líta eitt fyrsta íslenska tónlistarmyndbandið, við gamansönginn Bílavísur, með miklum leikrænum tilþrifum tríósins.

Ekki minnkuðu vinsældir Savanna tríósins við sjónvarpsþættina. Þar komu fram mörg ný lög og því var ráðist í þriðju stóru plötuna. Hún var hljóðrituð í London, í stereo, og kom út í mars 1967. Á henni er m.a. að finna lögin „Surtseyjarrímu“ við texta Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings og „Brúðarskóna“, frábært lag Þóris Baldurssonar við ljóð Davíðs Stefánssonar.

Fjórða stóra platan kom út í október 1968 en þar er m.a. lagið „Barn“ eftir Ragnar Bjarnason. Þetta var síðasta plata Savanna tríósins um langt árabil og ferlinum í raun lokið. Björn var orðinn hönnuður við sjónvarpið, Troels hóf nýjan feril með „Þremur á Palli“ og Þórir starfaði við tónlist víða um lönd.

Lög Savanna tríósins voru endurútgefin á safnplötum af og til og það var ekki fyrr en 30 ár voru liðin frá upphafinu 1961 að tríóið kom saman í hljóðveri og tók upp plötuna „Eins og þá“ 1991 með sjö nýjum lögum og átta gömlum, í nýjum búningi. Í kjölfarið fylgdu nokkur stök lög, m.a. í safnið „Íslandslög“.

Þessi safnútgáfa spannar nánast allt sem Savanna tríóið hefur hljóðritað. Tilefni hennar er að á nýársdag 2008 voru 45 ár liðin frá því fyrsta fullmótaða efnisskráin var flutt á þremur veitingahúsum sama kvöldið og glæstum ferli var hrundið af stað ...

Jónatan Garðarsson. Af vefnum Land og saga í tilefni heildarútgáfu á hljóðritum Savannatríósins 2009.

Meðlimir

Nafn Staða Frá Til
Björn G. Björnsson Söngvari og Gítarleikari
Guðjón Margeirsson Bassaleikari
Gunnar Sigurðsson Bassaleikari
Troels Bendtsen Söngvari og Gítarleikari
Þórir Baldursson Söngvari, Gítarleikari, Útsetjari og Harmonikuleikari

Skjöl

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 11.07.2014