Moses Hightower Hljómsveit

Í kjölfar útgáfu plötunnar Búum til börn sumarið 2010 festu drengirnir í Moses Hightower sig í sessi sem dugmikla og metnaðarfulla flytjendur, ekki síður en framleiðendur, seigfljótandi og sálarskotinnar tónlistar. Hljómsveitin, sem var stofnuð árið 2007 og samanstendur af Andra Ólafssyni, bassaleikara og söngvara, Daníel Friðriki Böðvarssyni, gítarleikara, Magnúsi Trygvasyni Eliassen trommara og Steingrími Karli Teague hljómborðsleikara og söngvara, kom fyrst fram sem tónleikahljómsveit Dísu (Bryndísar Jakobsdóttur). Smám saman söfnuðust frumsamin lög í sarpinn, og hófust upptökur á plötu sumarið 2009. Magnús Öder, oft kenndur við Benny Crespo’s Gang eða Lay Low, tók upp og hljómblandaði, en hljómsveitin gaf sjálf út.

Á Búum til börn, sem fékk afburðagóða dóma og tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem plata ársins og fyrir textagerð, eru tíu lög þar sem greina má sterk áhrif frá sálartónlist áttunda áratugarins, en auk þess vísanir í m.a. neo-soul og dub tónlist. Textarnir eru svo kapítuli út af fyrir sig, séríslenskir, hversdagslegir og hnyttnir. Aðstoðarfólk á plötunni er ekki af verri endanum, en þar koma m.a. fram Ragnheiður Gröndal, Sigríður Thorlacius og Dísa í bakröddum, og Óskar Guðjónsson og Samúel Jón Samúelsson á tenórsax og básúnu. Lögin Búum til börn, Vandratað, Alltígóðulagi og Bílalest út úr bænum gerðu það öll gott í útvarpi.

Eftir þær góðu undirtektir sem Búum til börn fékk létu fjórmenningarnir það ekki aftra sér við tónlistarsköpun að búa lengst af í þremur mismunandi löndum, heldur héldu ótrauðir áfram að semja - að miklu leyti yfir internetið - sem og spila opinberlega þá sjaldan þeir voru allir á Íslandi. Þeir skrifuðu undir samning við Record Records snemma árs 2012 og um sumarið kom út Önnur Mósebók, einnig unnin í samstarfi við Magnús Öder sem hljóðritaði og hljóðblandaði í stúdíói sínu, Orgelsmiðjunni.

Þar er notast við svipaða uppskrift og á fyrri plötunni, en útkoman ívið áleitnari og heilsteyptari, þótt farið sé yfir víðan völl, bæði í tónlist og textum. Hljóðgervlar koma meira við sögu, tekið er á fönk-sprett að hætti James Brown, heyra má brasilísk áhrif og söngútsetningar spanna allan tilfinningaskalann.

Segja má að platan hafi hitt í mark, því auk hressilegrar sölu og einróma lofs gagnrýnenda var hún valin plata ársins af Fréttablaðinu, komst á Kraumslistann og hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir lagasmíðar og textagerð. Var hún auk þess tilnefnd sem plata ársins, Steingrímur og Andri sem söngvarar ársins, lagið Sjáum hvað setur sem lag ársins, og Magnús Öder sem upptökustjóri ársins. Lögin Stutt skref, Sjáum hvað setur og Háa c voru öll þaulsetin á eða við toppsæti vinsældalista.

Af Tónlist.is (22. desember 2014)

Moses Hightower's mellow take on 70's blue-eyed soul first came to the attention of Icelandic listeners when their plain-spoken single "Búum til börn" (Let's Make Babies) received a fair amount of airplay on national radio in early 2008.

The band has since then released two 10-track albums, both to outstanding reviews and extensive airplay: "Búum til börn" in July 2010, and "Önnur Mósebók", released on the Icelandic label Record Records in August 2012.

For the latter they received the Icelandic Music Awards as Songwriters of the year and Lyricists of the year, and the DV Cultural Award for Music. It was also named Album of the year by Fréttablaðið, Iceland's most read newspaper.

From the bands FaceBook-page (December 22, 2014)

Meðlimir

Nafn Staða Frá Til
Andri Ólafsson Bassaleikari 2007
Daníel Friðrik Böðvarsson Gítarleikari 2007
Magnús Trygvason Elíassen Trommuleikari 2007
Steingrímur Karl Danielsson Teague Söngvari og Hljómborðsleikari 2007

Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 28.09.2015