Óðmenn Poppsveit og Rokksveit

Ball í Ungó-Keflavík laugardaginn 12. febrúar 1966, þar sem Óðmenn eru auglýstir ásamt Hljómum, er það fyrsta sem finnst á timarit.is um Óðmenn. Í júní segir Vikan stuttlega frá sveitinni:

... Hljómsveitin lét fyrst í sér heyra í febrúar s.l. og hefur smám saman áunnið sér slíkar vinsældir að piltarnir gera ekki annað nú orðið en að leika á dansiböllum á kvöldin og æfa sig á daginn. Óðmenn, sem allir eru búsettir í Keflavík, heita Jóhann G. Jóhannsson, Eirikur Jóhannsson, Valur Eiríksson og auk þeirra er sem fyrr getur Engilbert Jensen.

Jóhann leikur á bassagítar og var áður með hljómsveitinni Straumar frá Borgarnesi. Auk þess sem hann leikur á bassa leikur hann á orgel, þegar svo ber undir. Eiríkur er bróðir Jóhanns og leikur á sólógítar. Þegar hljómsveitin var stofnuð, var Eiríkur sóttur alla leið til Færeyja, en þar hafði hann starfað um langt árabil. Valur leikur á rhythmagítar og Engilbert á trommur – og allir geta þeir sungið ...

Stórtónleikar voru haldnir í Austurbæjarbíói 1. febrúar 1967 þar sem Óðmenn léku ásamt Hljómum, Mánum, Tónum og Toxic – Dúmbó, Logar og Pónik sem auglýstar höfðu verið gengur úr skaftinu. Vikan fjallaði um tónleikana og sagði í fyrirsögn: „Ef nokkuð má marka viðbrögð áheyrenda voru það Óðmenn, sem stóðu með pálmann í höndunum að loknum þessum hljómleikum“. Ennfremur:

Óðmenn komu fram í nýjum múnderingum og hrifu unga áheyrendur á augabragði með laginu Dandy, sem þeir sungu með eindæmum skemmtilega. Það fer ekki á milli mála, að þessari hljómsveit er alltaf að fara fram, og vist er um það, að engin hljómsveit hérlend hefur jafngóðum söngkröftum á að skipa. Það var gaman að heyra Óðmenn flytja lagið „I'll be there“, þetta fallega lag, sem The Four Tops hafa gert vinsælt. Aukalag piltanna á þessum hljómleikum „Tonight“ eftir Jóhann Jóhannsson er tvímælalaust með fallegri íslenzkri dægurlögum, sem fram hafa komið í langan tíma. Óðmenn unnu stóran sigur á þessum hljómleikum enda var þeim óspart klappað lof í lófa.

Einar Jóhannsson, gítarleikari og bróðir Jóhanns G. forsprakka sveitarinnar, hætti í september 1967 og gekk þá Magnús Kjartansson í bandið. Vikan segir frá þessu 28. september 1967:

... Magnús mun jafnvígur á allflest hljóðfæri en hann mun leika á hinn orgelið með hljómsveitinni, og kannski blása í trompetinn við og við, ef þurfa þykir, en Magnús leikur einmitt með Óðmönnum á trompett á hinni ágætu hljómplötu hljómsveitarinnar. – Hljómsveitin mun að sjáfsögðu fá á sig annan svip með tilkomu orgelsins. Óðmenn binda miklar vonir við hinn unga en efnilega nýgræðing í hljómsveitinni. Þeir standa líka í þakkarskuld við Eirík, sem hefur leikið með þeim frá því hljómsveitin var stofnuð ...

Æskan segir frá því 1. maí 1968 að Shady Owens hafi ráðist til hljómsveitarinnar 1. febrúar – „... óvenju hæfileikamikil söngkona, og auk þess með sérlega góða sviðsframkomu“. Þarna er hljómsveitin orðin ein sú vinsælasta á landinu.

Í júlíbyrjun segir Morgunblaðið frá fyrirhugaðri ferð Hljóma til Ameríku, og að Shady og Gunnar Jökull úr Flowers muni ganga til liðs við Hljóma að þessu tilefni. Æfingar muni hefjast í ágústbyrjun; í lok mánaðarins verði haldið til London í stúdíó og þaðan til Bandaríkjanna.

Ekkert varð úr þessari vesturför Hljóma. Gunnar Jökull hélt áfram í Flowers um sinn en Shady gekk til liðs við Hljóma og kom fyrst fram með þeim á helgarskemmtun í Saltvík 17. ágúst 1968.

Óðmenn hættu spilamennsku um tíma eftir að Shady yfirgaf bandið.

Hljóðrit

„Hljómplatan er kominn ! Tryggið ykkur eintak“ auglýsir Morgunblaðið 22. júlí 1967. Fjögur lög eftir Jóhann eru á plötunni sem hljóðrituð var hjá Sjónvarpinu og Óðmenn gáfu sjálfir út segir Vikan 3. ágúst. Jónas R. Jónsson skrifar stuttan dóm um plötuna í Alþýðublaðið 28. september. – Hér má sjá framhlið og bak plötuumslagsins.

Óðmenn II

„Óðmenn endurreystir – Ætla að móta smekk unga fólksins“ er yfirskrift viðtals við Finn Torfa Stefánsson í Alþýðublaðinu 12. júní 1969. Þarna var komið fram Cream-tríó. Jóhann lék á bassa og söng, Finnur Torfi á gítar og Óli Garðars trommaði. „[E]in metnaðarfyllsta rokksveit sjöunda áratugarins“ skrifar Árni Matthíasson í bæklingi með endurútgáfu á hinni tvöföldu breiðskífu Óðmanna 2004. 

Mikilli popphátíð var haldin í Laugardalshöll 4. september 1969. Þar voru Óðmenn ein af 11 hljómsveitum sem tróð upp fyrir um 4.000 ungmenni. Ævintýri var kosin vinsælasta sveitin og Björgvin Halldórsson poppstjarna ársins. Um framistöðu Óðmanna skrifaði Andrés Indriðason:

Óðmenn fluttu lög í Cream stíl og gerðu þeim frábær skll. Þessi hljómsveit var nokkuð frábrugðin öðrum, sem fram komu á pop-hátíðinni, og fer ekki á milli mála, að hér eru miklir hæfileikamenn á ferðum. – Ólafur Garðarsson er sífellt að sækja í sig veðrið og er á góðri leið með að verða einn okkar beztu trymbla ...

Sveitin hætti starfsemi í árslok 1970.

Hljóðrit

Lögin Bróðir og Flótti komu út á tveggja laga plötur snemma árs 1970 á vegur SG-hljómplattna. Seint í ágúst sama ár kom svo út önnur lítil plata á vegum SG með lögunum Spilltur heimur og Komdu heim. Báðar plöturnar voru hljóðritaðar í London síðla árs 1969.

Í lok september 1970 greindi Vísir frá því að Óðmenn væru á leið til Kaupmannahafnar. Hljóðrita átti tvær LP-plötur sem gefnar yrðu út saman. Útkoma var fyrsta tvöfalt albúmið á Íslandi í desember 1970. Hljómplötugagnrýnendur völdu albúmið plötu ársins 1970.

 

Meðlimir

Nafn Staða Frá Til
Eirikur Jóhannsson Söngvari og Gítarleikari 1966-02 1967-09
Engilbert Jensen Söngvari og Trommuleikari 1966-02 1967-03
Finnur Torfi Stefánsson Gítarleikari 1969-05 1970-10
Jóhann G. Jóhannsson Organisti, Söngvari og Bassaleikari 1966-02 1970-10
Magnús Kjartansson Trompetleikari og Hljómborðsleikari 1967-08 1968-07
Ólafur Garðarsson Trommuleikari 1969-05 1970-02
Pétur Östlund Trommuleikari 1967-03
Reynir Harðarson Trommuleikari 1970-01 1970-10
Shady Owens Söngkona 1968-02 1968-07
Valur Emilsson Gítarleikari 1966-02

Skjöl

Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 12.08.2014