Caput Kammerhópur

<p>Caput hefur aldrei tekið sig hátíðlega. Caput er bara vinnustofa þar sem er unnið með nýja tónlist fyrst og fremst. Við höfum aldrei fyrr haldið upp á afmæli eða “merk tímamót” í sögu hópsins. Við vitum heldur ekki nákvæmlega hvað Caput er gamalt fyrirbæri. Fæðingadagur er ekki skráður í kirkjubækur.</p> <p>Fyrstu tónleikarnir sem undirritaðir skipulögðu saman voru haldnir í Bústaðakirkju í maí 1987 í nafni “Nýja músíkhópsins.” Meðal flytjenda var Kristinn Sigmundsson en ljóðskáldin Stefán Hörður Grímsson og Þorsteinn frá Hamri lásu úr verkum sínum. Þetta var kannski upptakturinn.</p> <p>Fæðingardagurinn hefur oft verið talinn 3. janúar 1988. Þá stjórnaði Guðmundur Óli Gunnarsson 8 manna tónlistarhópi á tónleikum í Norræna húsinu. Við frumfluttum m.a. Oktett Hauks Tómassonar. Flestir þeirra sem þarna komu fram hafa spilað með okkur síðan.</p> <p>Nákvæmlega ári síðar vorum við orðin “Sinfóníetta” eða 14 manna band og spiluðum í Íslensku óperunni. Hljóðritun frá þessum tónleikum var gefin út á diski suður á Ítalíu skömmu síðar.</p> <p>Í september 1990 urðum við CAPUT. Caput er latína. Merking: Höfuð. Caput getur skroppið saman, allt niður í einn einleikara, en líka þanið sig upp í 20 manna hóp.</p> <p>Útrásin hófst 1992. Nú höfum við farið í 23 tónleikaferðir og gefið út 15 diska hjá útgáfufyrirtækjum í 5 löndum.</p> <p>Flest hefur gerst af sjálfu sér ... “Óþarfi að nefna það en ykkur er boðið að halda tónleika á “Hausti í Varsjá”. Þannig var okkur boðið á þessa gömlu nútímatónlistarhátíð árið 1998.</p> <p>Við höfum aldrei markað okkur neina stefnu aðra en þá að vinna með lifandi tónskáldum, að vera lifandi sjálf og vanda okkur eins og við getum. Á síðustu 20 árum hefur tónlistin opnast í allar áttir. Árið 1988 var að minnsta kosti hægt að gera tilraun til að skilgreina nýja tónlist sem eitthvað eitt afmarkað fyrirbæri. Nú við upphaf 21. aldarinnar eru töluð mörg hundruð fjarskyld tónlistartungumál. Okkar hlutverk er að þýða. Við trúum ennþá á hið dularfulla, milliliðalausa samband flytjandans og hlustandans á tónleikum, þegar hið óskiljanlega verður skiljanlegt.</p> <p>20 ára? Fullorðin? Miðaldra? Stöðnuð? Síung?</p> <p>Við viljum nota tækifærið til að þakka öllum sem hafa unnið með okkur, þeim sem hafa hlustað á okkur og þeim sem hafa gert þetta allt fjárhagslega mögulegt.</p> <p>Við stöndum á krossgötum eins og alltaf og munum halda áfram án sérstakrar stefnu beina leið inn í framtíðina ... ekkert endilega í hátíðarskapi. Við höldum aldrei hátíðartónleika … síspilandi á tónlistarhátíðum.</p>

Meðlimir

Nafn Staða Frá Til
Auður Hafsteinsdóttir Fiðluleikari
Brjánn Ingason Fagottleikari 1987
Bryndís Halla Gylfadóttir Sellóleikari
Daníel Þorsteinsson Píanóleikari
Eggert Pálsson Slagverksleikari
Eiríkur Örn Pálsson Trompetleikari
Elísabet Waage Hörpuleikari
Eydís Franzdóttir Óbóleikari
Frank Aarnink Slagverksleikari
Greta Guðnadóttir Fiðluleikari
Guðmundur Kristmundsson Víóluleikari 1992
Guðmundur Óli Gunnarsson Stjórnandi
Guðni Franzson Stjórnandi og Klarínettuleikari 1987
Guðrún Óskarsdóttir Semballeikari
Hávarður Tryggvason Bassaleikari
Helga Bryndís Magnúsdóttir Píanóleikari
Hildigunnur Halldórsdóttir Fiðluleikari 1992
Ingrid Karlsdóttir Fiðluleikari
Kjartan Guðnason Slagverksleikari
Kolbeinn Bjarnason Flautuleikari 1987
Pétur Grétarsson Slagverksleikari
Pétur Jónasson Gítarleikari
Sif Margrét Tulinius Fiðluleikari
Sigrún Eðvaldsdóttir Fiðluleikari
Sigurður Halldórsson Sellóleikari
Sigurður Sveinn Þorbergsson Básúnuleikari 1989
Snorri Sigfús Birgisson Píanóleikari
Steef van Oosterhout Slagverksleikari
Valgerður Andrésdóttir Píanóleikari
Zbigniew Dubik Fiðluleikari

Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 17.10.2016