Svanfríður Rokksveit

Hljómsveitin Svanfríður var stofnuð í ársbyrjun 1972 í kjölfar þess að hljómsveitin Náttúra leystist upp eftir að hafa tapað öllum hljóðfærum sínum í Glaumbæjarbrunanum 4. desember 1971. Pétur W. Kristjánsson söngvari hljómsveitarinnar lét það ekki stöðva sig, fékk sér nýtt hljóðkerfi og bað Birgi Hrafnsson gítarleikara, fyrrum félaga sinn í Pops, um að taka þátt í stofnun nýrrar hljómsveitar. Birgir var að hætta í hljómsveitinni Ævintýri og tók með sér trommuleikarann Sigurð Karlsson. Fjórði maðurinn var Gunnar Hermannson bassaleikari Tilveru.

Platan What‘s Hidden There seldist upp og var lengi ófáanleg nema í sjóræningjaútgáfum sem voru gefnar út víða um heim.

Árið 2011 gaf þýska fyrirtækið Shadocks Music út vandaða útgáfu af What‘s Hidden There á vínyl í 500 tölusettum eintökum og einnig á geislaplötu. Hefur þessi útgáfa hlotið afar lofsamleg ummæli um allan heim og eiga Svanfríðar menn aðdáendur á ólíklegustu stöðum.

Svanfríður hætti sumarið 1973 þegar Birgir Hrafnsson og Sigurður Karlsson tóku boði Magnúsar Þórs Sigmundssonar og Jóhanns Helgasonar um að ganga í Change. Pétur W. Kristjánsson og Gunnar Hermannsson stofnuðu stuttu seinna hljómsveitina Pelican.

Nú þegar 40 ár eru liðin frá því að hljómsveitin Svanfríður var stofnuð ber svo við að Pétur W. Kristjánsson hefði orðið 60 ára á þessu ári, en hann lést langt um aldur fram 3. september 2004 aðeins 52 ára gamall. Birgir Hrafnsson, Gunnar Hermannsson, Sigurður Karlsson og Sigurður Rúnar Jónsson, sem léku allir á plötunni What‘s Hidden There, ætla að heiðra minningu Péturs og fagna um leið 40 ára afmæli hljómsveitarinnar á tónleikum í Austurbæ 14. apríl næstkomandi. Þar verða rifjuð upp nokkur þeirra tökulaga sem nutu hvað mestra vinsælda í flutningi Svanfríðar auk þess sem öll lögin af plötunni What‘s Hidden There? verða leikin. Þórður Árnason gítarleikari, Diddi Fiðla hljómborðs og fiðluleikari og Pétur Hjaltested hljómborðsleikari taka þátt í tónflutningum með Svanfríði en söngvararinn Eiríkur Hauksson mun taka að sér hlutverk Péturs ásamt söngvurunum Elvari Erni Friðrikssyni og Pétri Erni Guðmundssyni sem munu einnig sjá um að fylla upp í skarð Péturs W. Kristjánssonar.

Textinn er af Miði.is þar sem auglýstir voru tóleikar með Svanfríð í Austurbæ 14. apríl 2012.

Meðlimir

Nafn Staða Frá Til
Birgir Hrafnsson 1972-01 1973-07
Gunnar Hermannsson Bassaleikari 1972-01 1973-07
Pétur Kristjánsson Söngvari 1972-01 1973-07
Sigurður Karlsson Trommuleikari 1972-01 1973-07

Skjöl

Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 24.03.2015