<h4>Stutta útgáfan af sögu Þokkabótar</h4> <p>Hljómsveitin Þokkabót á rætur sínar á Seyðisfirði. Þaðan koma þrír af upphaflegum meðlimum hennar, Gylfi Gunnarsson, Ingólfur Steinsson og Magnús R. Einarsson. Þeir höfðu spilað saman frá unglingsárum í skóla- og danshljómsveitum. Það var svo sumarið 1970 að Halldór Gunnarsson kom til Seyðisfjarðar til að vinna í fiski. Hann kynntist fljótlega fyrrnefndum félögum enda áttu þeir sameiginlegan óþrjótandi áhuga á tónlist. Þeir spiluðu saman næstu sumur í hljómsveitinni Einsdæmi. Þar voru einnig þeir Ólafur Már Sigurðsson bassaleikari og Gísli Blöndal trommari.</p> <p>Það var svo haustið 1973 að Þokkabót fór að starfa í þeirri mynd sem hún kom landsmönnum fyrir sjónir þjóðhátíðarárið 1974 er þeir félagar sendu frá sér sína fyrstu plötu Upphafið. Þrír þeirra höfðu reyndar komið fram í Áramótaskaupinu 1972 með lagið Framagosann sem einmitt var að finna á plötunni. Kannski má því í raun rekja upphaf sveitarinnar aftur til desember 1972. Útgefendur Upphafsins voru Ólafur Þórðarson Ríó-maður (sem hafði „uppgötvað“ sveitina), Rúnar Júlíusson og Gunnar Þórðarson en þeir kölluðu þá útgáfu ORG. Upptökur fóru fram í HB-stúdíói (Hjörtur Blöndal, upptökumaður ásamt Ólafi og Gunnari) við Nóatún í maí 1974. Er skemmst frá því að segja að platan sló hressilega í gegn þá um haustið. Lög eins og Veislusöngur, Nýríki Nonni, Karl sat undir kletti og Blítt lætur blærinn heyrðust mikið í útvarpi en þó voru það Litlir kassar sem slógu öll met. Platan þótti fersk, hljómurinn nýr, söngur og raddir áheyrilegar og hinn mjög svo róttæki tónn lét vel í eyrum yngri kynslóðanna. Í kjölfarið fylgdi sjónvarpsþáttur þar sem þeir félagar sungu lög af plötunni og sviðsettu m.a. Nýríka Nonna. Þokkabót kom mikið fram á þessum fyrstu árum. Þeir félagar þeystu um höfuðborgarsvæðið milli samkoma af ýmsu tagi. Mest voru það þorrablót, árshátíðir og skemmtikvöld, m.a. hjá félögum róttæklinga.</p> <p>Árið 1975 kom svo út önnur plata Þokkabótar. Þá hafði Eggert Þorleifsson bæst í hópinn. Hann lék á flautu og klarinet og höfðu þeir félagar aðsetur á Seyðisfirði þetta sumar þar sem samið var og æft fyrir upptökur er fóru fram um haustið í Hljóðrita við Trönuhraun í Hafnarfirði. Þá bættist í hópinn Ragnar Eymundsson, trommari frá Hornafirði. Fyrir jólin kom svo út platan Bætiflákar. Hún hafði að geyma frumsamin lög og texta í bland við kvæði góðskálda. Bætiflákar seldust allvel en náðu ekki jafn miklum vinsældum og Upphafið. Ádeilu- og mótmælasöngvar höfðu að mestu vikið fyrir kvæðum um lífið og tilveruna og náttúruna sem var óspart lofuð á B-hlið plötunnar sem hét Sólarhringur. Þetta féll róttækum aðdáendum sveitarinnar ekki alls kostar í geð. Þó heyrðust nokkur lög af henni í útvarpi og heyrast sum enn. Nefna má Mövekvæði, Sveinbjörn Egilsson og Miðvikudag. Útgáfa plötunnar var nýlega stofnuð: Steinar hf. Steinar Berg Ísleifsson og Ólafur Þórðarson fóru fyrir henni og Ólafur stjórnaði upptökum á Bætiflákum en upptökumaður var Tony Cook. Sveitin kom fram á nokkrum tónleikum þetta ár m.a. stórtónleikum með fjölda hljómsveita í Háskólabíói.</p> <p>Sumarið 1976 var hafist handa við æfingar fyrir þriðju plötu Þokkabótar. Þá höfðu orðið miklar breytingar á bandinu. Gylfi og Magnús voru hættir en í stað þeirra komnir Leifur Hauksson, Sigurjón og Karl Sighvatssynir. Einnig bættist trommarinn Ragnar Sigurjónsson í hópinn. Mál og menning hafði tekið að sér útgáfuna og nú skyldi sungið um herinn á Miðnesheiði. Æfingar gengu vel í bakhúsi við Skólastræti 5 og um haustið var farið í Hljóðrita og tekið upp efni á plötuna Fráfærur sem kom út snemma vetrar. Upptökumaður var Jónas R. Jónsson. Flest lög og textar voru eftir þá Halldór, Ingólf og Leif. Broddurinn sem verið hafði í textum Þokkabótar var enn til staðar þótt breyttur væri. Hann birtist nú í kvæðum Halldórs Laxness og Jóhannesar úr Kötlum ásamt frumsömdum lögum og textum um bandaríska herinn. Þetta var þó ekki fært í búning baráttusöngva heldur meira eins og lýsing á áhrifum hersetunnar á íslenskt efnahagslíf og menningu.</p> <p>Platan Fráfærur fékk ákaflega jákvæðar viðtökur gagnrýnenda og hefur jafnan verið álitin besta plata Þokkabótar, músíklega. Hún seldist hins vegar lítið. Líklega féll róttæklingum ekki í geð þessi nálgun á hernum á Miðnesheiði. Hefðu frekar viljað heyra baráttusöngva í takt við: Ísland úr Nató, herinn burt! Og aðrir stimpluðu plötuna sem pólitískan áróður. Þá mætti útgáfa hennar mikilli andstöðu innan Máls og menningar. Rithöfundar félagsins voru lítt hrifnir af þeirri stefnu að hampa „poppurum“ á kostnað skáldskaparins. Þá hafði Mál og menning enga reynslu af plötuútgáfu. Lítið fór fyrir auglýsingum og tónleikahald var í lágmarki enda tvístraðist hópurinn fljótlega eftir útkomu plötunnar þegar ljóst var orðið að hún hafði fallið í grýttan jarðveg. Menn fóru að líta svo á að þetta hefði verið svanasöngur sveitarinnar.</p> <p>Árið 1976 kom út platan Í kreppu. Það var útgáfan Steinar sem þar safnaði saman lögum um kreppuástand. Þokkabót átti þarna tvö lög: Þambara vambara eftir Pétur Pálsson og Jóhannes úr Kötlum (úr Sóleyjarkvæði) og Kreppu (Hagvaxtartimburmenn) eftir Leif Hauksson og Halldór Gunnarsson.</p> <p>Þegar kom fram á árið 1978 voru þeir Halldór Gunnarsson og Ingólfur Steinsson farnir að ókyrrast. Báðir höfðu þeir haldið áfram að semja lög og texta og langaði til að koma efni sínu á framfæri. Þeir voru í góðu samabandi við Lárus H. Grímsson sem verið hafði flautu- og hljómborðsleikari í hljómsveitinni Eik um árabil. Fór svo að þessir þrír ákváðu að hefja samvinnu um gerð nýrrar plötu. Eftir að þeir félagar höfðu æft seinni part sumars 1978 fóru þeir í Hljóðrita og tóku upp efni sem reyndist verða síðasta stóra plata Þokkabótar: Í veruleik. Hún kom út 1. febrúar 1979 hjá Fálkanum. Upptökumaður var Alan Clarke. Til liðs voru fengnir Ásgeir Óskarsson trommari og Haraldur Þorsteinsson bassaleikari, báðir úr hljómsveitinni Eik. Platan Í veruleik innihélt frumsamin lög eftir Halldór og Ingólf og var léttari en Fráfærurnar án þess að horfið væri aftur til hinna glaðbeittu mótmælasöngva sem höfðu aflað sveitinni svo mikilla vinsælda í upphafi. Heldur fór lítið fyrir róttækni, textar voru vangaveltur um lífið og tilveruna með nokkrum broddi þó. Platan fékk miðlungs gagnrýni, seldist heldur dræmt og heyrðist lítið í útvarpi. Helst má í því sambandi nefna lögin Fullorðinsleiki og Hver á rigninguna? Hópurinn tróð upp með efnið og gerði nokkuð víðreist milli menntaskóla allt norður til Akureyrar. Samstarfið fjaraði síðan vorið 1979. Menn sneru sér að öðru og hópurinn dreifðist. Plöturnar urðu ekki fleiri.</p> <p>Árið 1986 lifnaði Þokkabót við stutta stund. Gömlu félagarnir fjórir tróðu upp í Súlnasal Hótels Sögu frá septemberbyrjun og fram undir jól með hálftíma skemmtiprógram um helgar ásamt hljómsveit Grétars Örvarssonar. Í tengslum við það kom út lagið Ingólfur Arnarson eftir Halldór Gunnarsson og Grétar á plötunni Skýjaborgir sem Geimsteinn gaf út.</p> <p>Önnur upprisa sveitarinnar varð síðan í tengslum við 100 ára afmæli Seyðisfjarðarkaupstaðar 1995. Þá kom út hjá Skífunni safnplatan Þokkabandsárin með úrvali af lögum sveitarinnar, ásamt nýrri útgáfu af Karl sat undir kletti og nýju lagi, Gamli bær eftir Ingólf Steinsson. Haldnir voru tónleikar á sviðinu í Herðubreið þar sem þessir gömlu félagarnir höfðu hafið feril sinn flestir. Með þeim voru Kristinn Svavarsson blásari og Ragnar Sigurjónsson trommuleikari. Tónleikarnir heppnuðust vel, fullt var út úr dyrum og má segja að þeir félagar hafi verið komnir aftur heim.</p> <p>Síðan 1995 hefur heldur lítið farið fyrir Þokkabót. Upprunalega sveitin hefur þó komið saman nokkrum sinnum, aðallega til að spila í stórafmælum vina og innan stórfjölskyldunnar. Einnig komu þeir fram í sjónvarpi tvisvar sinnum. Þá má nefna nýja útgáfu af Litlum kössum sem fór á netið haustið 2008. Höfðu Halldór og Ingólfur ort upp hinn ágæta texta Þórarins Guðnasonar og kallaðist þessi útgáfa hans Tómir kassar. Var það nokkuð í takt við atburði líðandi stundar svo ekki sé meira sagt. Árið 2013 komu gömlu félgarnir fjórir tvisvar sinnum fram á Café Rósenberg fyrir fullum sal. Hvatinn að því var sá að Þokkabót var beðin að troða upp á tónleikum Þjóðlagahátíðar Reykjavíkur á Kex Hostel en það var einmitt Ólafur heitinn Þórðarson sem hafði verið forsprakki þeirrar hátíðar. Í kjölfarið fylgdu svo þessir tónleikar á Rósenberg. Fyrirhugað er að endurtaka leikinn í október 2014.</p> <p>Framtíðin er annars óskrifað blað eins og endranær og aldrei að vita nema Þokkabót blási til nýrrar sóknar en í deiglunni eru hugmyndir um skemmtiprógram þar sem sjöundi og áttundi áratugurinn verði skoðaðir frá nýju sjónarhorni ásamt því að gefa gömlu plöturnar út á diskum. Hvort þeir félagar ná að láta þessa drauma rætast verkum í verður tíminn að leiða í ljós.</p> <p align="right">Reykjavík í júlí 2014 – Ingólfur Steinsson</p> <h4>Hljóðrit</h4> <ul> <li>Upphafið (1974). ORG.</li> <li>Bætiflákar (1975). Steinar hf.</li> <li>Fráfærur (1976). Mál og mening.</li> <li>Í veruleik (1. febrúar 1979). Fálkinn.</li> <li>Þokkabandsárin - safnplata (1995). Skífan.</li> </ul> <h4>Aðstoðarmenn:</h4> <ul> <li>Ragnar Eymundsson (trommur) 1975</li> <li>Ragnar Sigurjónsson (trommur) 1976; 1995</li> <li>Ásgeir Óskarsson (trommur) 1978-1979</li> <li>Haraldur Þorsteinsson (bassi) 1978-1979</li> <li>Grétar Örvarsson (hljómborð) 1986</li> <li>Árni Scheving (harmoníka, vibrafónn) 1986</li> <li>Kristinn Svavarsson (saxófónn, þverflauta) 1995</li> <li>Árni Áskelsson (trommur) 2000</li> <li>Gunnar Árnason (trommur) 2008</li> </ul>

Meðlimir

Nafn Staða Frá Til
Eggert Þorleifsson Söngvari , Flautuleikari og Klarínettuleikari 1975 1976
Gylfi Gunnarsson Söngvari og Gítarleikari 1970 1975
Gylfi Gunnarsson Söngvari og Gítarleikari 1986
Halldór Gunnarsson Söngvari , Píanóleikari og Munnhörpuleikari 1972 1979
Halldór Gunnarsson Söngvari , Píanóleikari og Munnhörpuleikari 1986
Haraldur Þorsteinsson Bassaleikari
Ingólfur Steinsson Söngvari og Gítarleikari 1972 1979
Ingólfur Steinsson Söngvari og Gítarleikari 1986
Karl Jóhann Sighvatsson Upptökustjóri og Hljómborðsleikari 1976 1976
Lárus Halldór Grímsson Söngvari , Flautuleikari og Hljómborðsleikari 1978 1979
Lárus Halldór Grímsson Söngvari , Flautuleikari og Hljómborðsleikari 2000
Leifur Hauksson Söngvari og Gítarleikari 1975 1976
Magnús R. Einarsson Söngvari , Gítarleikari og Bassaleikari 1972 1975
Magnús R. Einarsson Söngvari , Gítarleikari og Bassaleikari 1986
Sigurjón Sighvatsson Söngvari og Bassaleikari 1976 1976

Skjöl

Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 9.01.2016