Roof Tops Soulsveit

<p>Hljómsveitin Roof Tops var stofnuð í janúar 1967 og var ein aðal soulsveitin á seinnihluta sjöunda áratugsins og í upphafi þess áttunda. Aðalvígi sveitarinnar var Glaumbær, sem í þá daga var vinsælasti skemmtistaður unga fólksins. Þegar saga þessarar sveitar er skoðuð virðast tíð mannaskipti, þar sem menn ýmist fóru eða komu og fóru aftur, einkenna starf hennar.</p> <p>Upphafleg liðskipan var Ari Jónsson trommur og söngur, Sveinn Guðjónsson orgel og söngur, Gunnar Guðjónsson gítar, Guðni Pálsson saxafónn og Erlingur Gíslason bassi. Og ekki leið á löngu áður en Jón Pétur Jónsson bassaleikari sem spilað hafði með Dátum gekk í sveit Ara bróður síns og félaga.</p> <p>Þannig skipuð sendi sveitin frá sér tvær smáskífur 1969 sem báðar komu út á vegum Fálkans. Sú fyrri, tveggja laga, innihélt lögin Ástin ein og Lena. Nokkru síðar sendi sveitin svo frá sér einhverja rómuðustu plötu blómatímans, þetta var fjögurra laga plata sem meðal annars innihélt lagið Söknuður.</p> <p>Vorið 1970 ákváðu Sveinn Guðjónsson og Guðni Pálsson að yfirgefa Roof Tops og snúa sér að frekari skólagöngu. Í stað Sveins kom Halldór Fannar á píanó og Guðmundur Haukur Jónsson kom inn sem söngvari, en hann hafði sungið með Dúmbó nokkru áður.</p> <p>Síðsumars sama ár gekk gítarleikarinn Vignir Bergmann til liðs við Roof Tops, en hann hafði verið með Júdasi, í stað Halldórs Fannars. Í ágúst brá Ari Jónsson sér í stutta kynnisferð yfir í Trúbrot eftir að Gunnar Jökull hafði fengið reisupassann á þeim bæ. Ari staldraði stutt við og var kominn aftur heim í Roof Tops nokkrum vikum síðar.</p> <p>Sveitin átti eftir að ganga í gegnum nokkrar mannabreytingar til viðbótar, gefa út eina smáskífu og LP plötu áður en yfir lauk. Báðar þær plötur komu út á vegum Á.Á. Records sem var í eigu Ámunda Ámundasonar.</p> <p>Í október 1972 gekk Ari Jónsson öðru sinni til liðs við Trúbrot og í hans stað var fenginn Guðjón Hilmarsson á trommur sem reyndar hafði stuttan stans og tók Halldór Olgeirsson við af honum. Þá hætti Vignir Bergmann á sama tíma og Ari gekk í Trúbrot, í hans stað kom Vilhjálmur Guðjónsson á gítar úr hljómsveitinni Gaddavír en staldraði einnig stutt við. Í hans stað kom Thomas R. Lansdown á gítar.</p> <p>Þegar Trúbrot leystist svo endanlega upp í mars 1973 snéri Ari aftur heim til Roof Tops. Thomas hætti svo í febrúar 1974 og í hans stað kom Gunnar Ringsted. Roof Tops hljóðritaði plötuna Transparency árið 1974 sem fékk dræmar viðtökur og hætti hljómsveitin störfum í desember 1974.</p> <p align="right">Bárður Örn Bárðarson - Textinn er fenginn af tónlist.is 19. febrúar 2015.</p>

Meðlimir

Nafn Staða Frá Til
Ari Jónsson Söngvari og Trommuleikari 1967-01 1972-10
Ari Jónsson Söngvari og Trommuleikari 1973-03 1974-12
Guðmundur Haukur Jónsson Söngvari 1970-05 1974-12
Guðni Pálsson Saxófónleikari 1967-01 1970-05
Gunnar Guðjónsson Gítarleikari 1967-01 1974-12
Gunnar Ringsted Gítarleikari 1974-02 1974-12
Halldór Fannar Píanóleikari 1970-05 1970-08
Halldór Olgeirsson Trommuleikari 1970-11
Jón Pétur Jónsson 1967
Sveinn Guðjónsson Organisti og Söngvari 1967-01 1970-05
Thomas R. Lansdown Gítarleikari 1974-02
Vignir Bergmann Gítarleikari 1970-08 1972-10

Skjöl

Roof Tops Mynd/jpg
Roof Tops Mynd/jpg
Roof Tops Mynd/jpg
Roof Tops 1970 Mynd/jpg

Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 15.04.2016