Flowers Poppsveit

<p>Hljómsveitin Flowers kom fyrst fram 10. september 1967* í Silfurtunglinu, í upphafi blómabyltingarinnar og nafnið sagt beint afsprengi þeirrar hugmyndafræði sem þá var, það er blómabyltingarinnar.</p> <p>Stofnendur Flowers voru gítarleikarinn Arnar Sigurbjörnsson, trommarinn Rafn Haraldsson og Jónas R. Jónsson söngvari, sem allir komu úr hljómsveitinni Troxic. Með þeim voru Skagabræðurnir Karl Jóhann Sighvatsson orgelleikari, sem verið hafði í Dátum og Tónum, og Sigurjón Sighvatsson á bassa en hann hafði áður spilað með hljómsveitinni Mods.</p> <p>Tveim mánuðum eftir stofnun Flowers kom svo Gunnar Jökull Hákonarson trommuleikari heim frá Englandi, en hann lék á sínum tíma í Tónum, en hafði dvalið í Englandi og leikið þar með hljómsveitinni Syn (sem síðar varð Yes). Eftir heimkomuna var hann snarlega ráðinn í bandið og Rafni gert að pakka setti sínu saman. Tilkoma Gunnars Jökuls þótti styrkja sveitina til muna enda talinn einn fremsti trommari poppsins hér á landi í þá tíð.</p> <p>Flowers var sú sveit sem þótti komast næst Hljómum hvað vinsældir og virðingu varðaði og veitti þeim harða samkeppni. Aðalbækistöðvar Flowers voru í Silfurtunglinu sem var fyrir ofan Austurbæjarbíó.</p> <p>Flowers sendi frá sér eina fjögurra laga smáskífu sem olli nokkrum taugatitringi við útkomu vegna túlkunar Jónasar (eða Jonna eins og hann var nefndur í daglegu tali í þá daga) á soulslagaranum Slappaðu af, en hann þótti dansa á línu velsæmismarkanna. Þrátt fyrir vinsældirnar leið ekki langur tími frá útkomu plötunnar þar til Jónas var látinn fara og ástæðan sögð tónlistarlegur ágreiningur. Í hans stað var ráðinn Björgvin Halldórsson, sem var upprennandi stjarna í íslensku poppi og hafði áður sungið með Bendix við góðan orðstýr. Segir sagan að Jónas hafi meldað sig veikan á gámlárskvöld og Björgvin fenginn til að hlaupa í skarðið, Jónas hafi eftir það ekki átt afturkvæmt í söngvarastöðuna hjá Flowers.</p> <p>En Jónas R. Jónsson var þó ekki af baki dottinn og stofnaði síðar Náttúru í félagi við Björgvin Gíslason gítarleikara úr Pops, Sigurð Árnason úr Tónum og Troxic og Rafni Haraldssyni úr Troxic og Flowers. Björgvin naut ekki sviðljósanna lengi með Flowers, því þrátt fyrir háleit markmið og áætlanir um gerð LP plötur ákváðu þeir Karl Sighvatsson og Gunnar Jökull að yfirgefa Flowers og ganga til liðs við meirihluta Hljóma og stofna súpersveitina Trúbrot vorið 1969. Þessi umskipti riðu sveitinni að fullu og ullu í kjölfarið miklum breytingum í landslagi poppsins.</p> <p align="right">Af Tónlist.is 8. júlí 2014. Bárður Örn Bárðarson.</p> <p>Tíminn fjallaði um mannabreytingar í Flowers <a href="http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3365540">4. febrúar 1969.</a> Jóhann Kristinsson úr Opus 4 komi í stað Sigurjóns á bassann og Björgvin Halldórsson úr Bendix í stað Jónasar. Aðdragandi breytinganna er stuttlega rakinn; Björgvin segist afar ánægður og heppinn að hafa verið valinn í svona góða hljómsveit. Raunar hafi hann sungið með bandinu fjögur kvöld um áramótin þegar Jónas lagðist í flensu. Karl segir að bandið stefni á að koma fram með lýja liðskipan um næstu helgi.</p> <hr align="left" size="1" width="200px" /> <p>* <a href="http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3369164">Í Tímanum 22. júní 1969</a> er rætt við Karl Sighvatsson um tilurð og þróun hljómsveitarinnar. Þar segir hann Flowers fyrst haf komið fram 8. september 1967 (föstudag). Sama dagsetning er nefnd í umfjölllun um bandið í <a href="http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3292185">Lesbók Morgunblaðsins</a> 9. febrúar 1969.</p>

Meðlimir

Nafn Staða Frá Til
Arnar Sigurbjörnsson Gítarleikari 1967-09-10
Björgvin Halldórsson Söngvari 1969-01
Gunnar Jökull Hákonarson Trommuleikari 1967-12
Jóhann Kristinsson Bassaleikari 1969-01
Jónas R. Jónsson Söngvari og Flautuleikari 1967-09-10
Karl Sighvatsson Hljómborðsleikari 1967-09-10
Rafn Haraldsson Trommuleikari 1967-09-10 1967-12
Sigurjón Sighvatsson Bassaleikari 1967-09-10 1969-05

Skjöl

Flowers 1968 Mynd/jpg
Flowers 1968 Mynd/jpg
Flowers 1969 Mynd/jpg

Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 24.10.2015