Lúðurþeytarafélag Reykjavíkur Lúðrasveit

<blockquote>„Lúðurþeytarafélag Reykjavíkur“, fyrsta lúðrasveit á Íslandi, er stofnað þann 26. mars 1876 að undirlagi Helga Helgasonar, tónskálds og trésmíðameistara í Reykjavík. Eins og áður er frá greint mun það einkum hafa verið fyrir áhrif frá lúðraflokkum þeim sem hingað komu og léku á „Þjóðhátíðinni“ 1874 að Helgi fer utan í þeim tilgangi að læra á horn og festa kaup á lúðrum. Hann hélt utan í desember 1875 og auk þess sem hann fær tilsögn á horn þar ytra lærir hann fiðluleik og vinnur jafnframt fyrir sér við skipasmíðar. Hann hefur nýtt tímann vel, því þessi dvöl hans í Kaupmannahöfn varð ekki löng, aðeins þrír mánuðir. Verður það séð af því að þann 4. desember 1875 er haldinn aukafundur í „Söngfélaginu Hörpu“ og samþykkt að allir félagsmennirnir komi saman á ákveðinn stað til þess að fylgja þeim Jónasi Helgasyni og Helga til skips, en þeir urðu samferða utan. Helgi var þá formaður félagsins. Heim koma þeir bræður svo að sögn „Þjóðólfs“ þann 23ja mars 1876 eftir 22ja daga harða útivist. Er tekið fram að þeir hafi dvalið ytra um veturinn „sjer til frama í sönglist“.</blockquote> <p align="right">Skært lúðrar hljóma: Sag íslenskra lúðrasveita (1984), bls. 27</p> <p>Hallgrímur Helgason segir Helga hafa stjórnað blásaraflokknum í 26 ár samfleytt. Í sveitinni hafi líka lært margir þeir sem síðar stofnuðu eða léku í lúðrasveitum víða&nbsp;um land – á Ísafirði, Akureyri, Seyðisfirði, Eyrarbakka, í Vestmannaeyjum og Hafnarfirði (Tónmenntasaga Íslands, bls. 89. Skákprent - 1992).</p> <p>Auk Helga samanstóð lúðraflokkurinn af fimm iðnaðarmönnum: Gísla Árnason - gullsmið, Eyjólfi Þorkelssyni - úrsmið, Páli Jónssyni - trésmið, Oddleifi Brynjólfssyni - bókbindara og Helga Jónassyni bróðursyni Helga hljómsveitarstjóra. Til er merkileg ljósmynd af mannskapnum.</p> <p>Einhverjar sögur eru af því að tíma hafi tekið að ná tökum á spilamennskunni enda stjórnandinn ekki reynslumikill og aðrir spilarar þurft að læra frá grunni. Rétt rúmu ári eftir stofnun segir Þjóðólfur hins vegar frá spilamennsku sveitarinnar á samkomu í tilefni afmælis Kristjáns konungs níunda (8. apríl). Fréttinni fylgja merkilegar upplýsingar um tilurð Lúðurþeytarafélagsins:</p> <blockquote>Við þessa samkomu var í fyrsta sinn opinberlega skemt með lúðrum (blásin kvæðalög fjórrödduð) fyrir og eptir að hvort minni var drukkið. Ef vel er spilað, og sé gott húsrúm – eins og hvorttveggja átti sér hér stað, – eru þess konar hljóðfæri einhver hin indælustu.<br /> <br /> – Eins og kunnugt er sigldu þeir bræður Jónas og Helgi Helgasynir til Khafnar í fyrra til þess að ná sér meiri framförum í sönglist. Áður en þeir fóru, var hér skotið saman nokkrum hundruð krónum til þess Helgi keypti lúðra fyrir og kæmi með þá. Um veturinn lærði hann þessa list hjá hinum ágæta meistara Dahl (við Casino), og hefir síðan kennt þrem öðrum ungum mönnum að spila með sér. Þeir sem því þeyttu lúðra við nefnt tækifæri, voru þessir: Helgi Helgason, söngkennarinn (1. Cornet), Gísli Árnason (Gíslasonar pólití) gullsmiðssveinn (Bass), Eyjólfur gullsmiður Þorkelsson (frá Borg) (1. Tenor), Sveinn snikkari Jónsson (frá Djúpadal) (2. Tenor), Páll Jónsson, snikkarasveinn (2. Cornet), og Oddleifur Brynjólfsson (Oddssonar bókbindara) (Alt)<sup>1</sup>.</blockquote> <p>----------<br /> <sup>1</sup> Það er ekki síður eptirtektavert en gleðilegt, að jafnframt því, sem iðkan og ástundan söngs og hljóðfæralistar tók að tíðkast hér í bænum meðal hinna yngri handverksmanna (og enda sumra sjómanna), hefir einnig allt annað gott háttalag tekið bersýnilega framförum í þeirra stétt. Þarf og ekki nema að nefna þá bræður Jónas og Helga til að sanna mönnum, að hér búi þó&nbsp;nokkrir snilldarmenn, sem að vísu eru „ólærðir“, en sem má ske einmitt því heldur geta hafið og menntað sína félagsbræður, af því þeir sjálfir hafa ungir gjörst sínir eigin lærímeistarar. Og fleiri munu eptir fara.</p>

Meðlimir

Nafn Staða Frá Til
Eyjólfur Þorkelsson Hljóðfæraleikari 1876-03-26
Friðberg Stefánsson Hljóðfæraleikari 1903
Gísli Árnason Hljóðfæraleikari 1876-03-26
Helgi Helgason Stjórnandi 1876-03-26
Helgi Jónasson Hljóðfæraleikari 1876-03-26
Oddleifur Brynjólfsson Hljóðfæraleikari 1876-03-26
Páll Jónsson Hljóðfæraleikari 1876-03-26

Skjöl

Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 27.05.2016