Leitin bætt, afmælisdagar og 5000 einstaklingar !

Leit í Ísmús hefur fengið svolitla fínstillingu. Þannig er nú hægt að leita eftir safnmarki hljóðrita eða handrita – prófaðu til dæmis "SÁM 84/1 EF" eða "ÍB. 70, 4to” (án gæsalappa). Leit að jón sigurðsson (án gæsalappa) finnur færslur þar sem orðin ”jón” eða "sigurðsson" koma fyrir í öllum orðmyndum. Ef gæsalappir eru settar um leitarstreng – "jón sigurðsson” – er hins vegar leitað að strengnum eins og hann er skrifaður líkt og í Google. Gæsalappir um stök orð má nota til að slökkva á leit eftir fallbeygingu og finna þannig tiltekna orðmynd. Leit að ”dagur" til að mynda skilar þá ekki „dag”, „degi” eða „dags”.

Önnur nýjung á vefnum er „Afmæli í dag“ neðst á forsíðu. Þar undir birtast nöfn og aldur skráðra einstaklinga sem eiga afmæli í dag. Síðar mun þessi virkni birta fleiri áhugaverðar upplýsingar sem tengjast deginum í dag. Ef smellt er á yfirskriftina birtast allir skráðir einstaklingar í Ísmús sem eiga afmæli yfirstandandi mánuð.

Loks má nefna að í gær var fimm þúsundasti einstaklingurinn grunn-skráður í Ísmús. Sá reyndist stórmúsíkantinn Davíð Þór Jónsson. Áhugasömum er bent á að grúska undir hnappnum „Efnisyfirlit“ í haus síðunnar. Prófaðu til dæmis þar hnappinn „Stöður og störf“. Skruna má niður listann eða nota leitarreitinn undir yfirskriftinni til að sía starfsheitin.

Jón Hrólfur

Rósa Þorsteinsdóttir uppfærði 21.11.2013