Um Ísmús

Ísmús - íslenskur músík- og menningararfur - er gagnagrunnur sem geymir og birtir á vefnum gögn er varða íslenska menningu fyrr og nú: hljóðrit, ljósmyndir, kvikmyndir, handrit og texta. Verkefnið er í umsjá Tónlistarsafns Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Þegar verkefnið hófst snerist það eingöngu um að birta heimildir um íslenska tónmenningu. Með tímanum hefur áherslan breyst og nú opnar Ísmús breiðan aðgang að tónlistar- og sagnamenningu og ýmsum heimildum um menningarsögu þjóðarinnar. Með Ísmús opnast þannig áður óþekktir möguleikar til rannsókna og heimildaöflunar af ýmsum toga, fyrir almenning, sérfræðinga, nemendur og kennara.

Öllum er heimill aðgangur að Ísmús og efnið sem þar er birt má brúka til einkanota, miðla til vina og vandamanna og nota til kynningar, kennslu og rannsókna, enda sé getið um uppruna efnisins. Fjölföldun til útgáfu eða sölu þarf þó að gerast í samvinnu við eða með leyfi þess sem varðveitir frumgögnin.

Hægt er að nota Ísmús án þess að vera skráður notandi en þeir sem skrá sig öðlast auðveldari aðgang að efninu með ýmsum hætti, t.d. hvað varðar leit, upplýsingagjöf og utanumhald af ýmsu tagi.

Eftirfarandi er dæmi um þau gögn sem Ísmús geymir nú:

 • 46.064 hljóðrit
 • 209 bækur og handrit
 • 10.160 einstaklingar
 • 386 hljómsveitir og hópar
 • 468 kirkjur
 • 567 orgel
 • 856 myndskeið

Björn Bjarnason menntamálaráðherra opnaði fyrstu gerð Ísmús verkefnisins við athöfn í Þjóðarbókhlöðu 28. júní 2001. Þá birtust þar myndir af handritum og vaxhólkahljóðrit Jóns Pálssonar og Jóns Leifs. 1. maí 2004 var um 2.000 hljóðritum úr þjóðfræðisafni Árnastofnunar formlega bætt við verkefnið. Eftir gagngera endurhönnun og stækkun opnaði síðan Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra nýjan Ísmús við hátíðlega athöfn í Salnum, 8. júní 2012.

Gagnaskráning

Ljóst er að mikil vinna er óunnin við skráningu þeirra gagna sem þegar eru í Ísmús. Ýmsar villur leynast líka í efninu og verða þær leiðréttar eftir því sem þær finnast. Eins vantar víða upplýsingar og ljósmyndir sem bætt gætu upplýsingagjöfina. Vonast er til að Ísmús-notendur, skráðir sem óskráðir, leggi þessari vinnu lið og eru allar ábendingar og tillögur vel þegnar.

Forsagan

Saga Ísmús verkefnisins nær aftur til 1995 þegar Bjarki Sveinbjörnsson hóf að undirbúa ljósmyndir af músíkhandritum til birtingar á Vefnum. Kveikjan var hugmynd sem rædd er í formála bókarinnar Íslensk þjóðlög (1906-1909), eftir sr. Bjarna Þorsteinsson, um að réttast væri að birta facsimile útgáfu músíkhandrita með umritunum í nútíma nótnaskrift. Slík birting þótti af ýmsum ástæðum ekki framakvæmanleg um aldamótin 1900. Bjarka þótti hins vegar blasa við að með nútíma tölvutækni og Netinu mætti nú framkvæma hugmyndina. Þessa miðlun mætti svo auka og bæta með því t.d. að tengja hljóðrit við einstök handrit eða lög og einnig rannsóknir eftir því sem þær kæmu til.

Í upphafi var lögð mikil vinna í að móta hvernig best mætti standa að verkefninu tæknilega og komu ýmsir að þeirri vinnu. Mikill tími fór í að vinna handritaljósmyndir fyrir vefinn og í hönnun gagnagrunns til að halda utan um myndirnar sjálfar, skráningu þeirra og birtingu. Margt hefur breyst og þróast frá upphaflegum hugmyndunum, bæði varðandi framsetningu efnisins og tæknina sem hægt er að beita. Mun sú þróun eflaust halda áfram eftir því sem tækninni vindur fram.

Handrit og prent

Ísmús birtir nú myndir af nær öll handritum sem innihalda nótur af einhverjum toga og varðveitt eru í íslenskum söfnum auk mynda af nótum í eldri prentuðum bókum. Nótur finnast bæði í skinnhandritum og handritabrotum með kaþólskum kirkjusöng fram til um 1550, og í pappírshandritum frá 16. öld og fram á 19. öld sem aðallega varðveita lútherskan kirkjusöng. Elstu prentaðar bækur íslenskar með nótum eru svokölluð Hólabók, sálmabók prentuð 1589, og Graduale (Grallari) - messusöngbók sem fyrst var prentuð árið 1594. Í Ísmús eru myndir af 6. útg. Grallarans frá 1691 og 2. útg. Hólabókar frá 1619. Auk þess eru aðgengileg Leiðarvísir til að leika á langspil eftir Ara Sæmundsen frá 1855 og Íslensk þjóðlög Bjarna Þorsteinssonar sem út kom 1906-1909.

Ætlunin er að birta einnig myndir af þjóðlagahandritum séra Bjarna. Þessi handrit, sem geyma þjóðlög sem Bjarni og aðrir söfnuðu úr munnlegri geymd, eru varðveitt á Árnastofnun og innihalda 950 lög. Þá er unnið að því að syngja öll lögin sem birt eru í þjóðlagasafni séra Bjarna inn á myndbönd. Á myndböndunum verður einnig birtur textinn sem sunginn er, til þess m.a. að undirstrika óvenjuleg orð og orðmyndir.

Hljóðrit

Ísmús veitir aðgang að hljóðrituðum heimildum, gömlum og nýjum. Hér er meðal annars að finna elstu hljóðritanir sem gerðar voru á Íslandi, en hljóðrit Jóns Pálssonar á vaxhólka frá 1903 eru þau elstu. Fleiri vaxhólkasöfn hafa varðveist frá fyrstu áratugum 20. aldar, svo sem hljóðrit Jóns Leifs, Jónbjörns Gíslasonar og Hjálmars Lárussonar, sem öll eru aðgengileg í Ísmús; vaxhólkar Theodórs Pálssonar verða einnig aðgengilegir.

Langstærsta safnið sem Ísmús veitir aðgang að er hið sístækkandi þjóðfræðisafn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Á vegum stofnunarinnar og Ríkisútvarpsins var mikið efni hljóðritað á segulbönd á seinni hluta 20. aldar, í öllum sveitum landsins og einnig í Íslendingabyggðum vestan hafs. Þetta hljóðritasafn er mikill fjársjóður og heimild um mannlíf og menningu þjóðarinnar fyrr á tíð. Stór hluti heimildarmanna er fæddur um og fyrir aldamótin 1900; sá elsti var fæddur 1827. Sífellt bætist við, og eftir aldamótin 2000 hefur efni einnig verið safnað á kvikmyndir. Þessi hluti Ísmús mun einnig fara stækkandi þegar aðrar stofnanir veita þar aðgang að hljóðritasöfnum sínum, en nú þegar er hægt að hlusta á hljóðrit gerð á vegum Fræðafélags Vestur-Húnvetninga og viðtöl við tónlistarmenn í tengslum við ritun bókar um Sinfóníuhljómsveit Íslands laust fyrir árið 2000.

Orgel í íslenskum kirkjum

Árið 2006 hófst söfnun heimilda um orgel í kirkjum landsins. Nær allar kirkjur landsins hafa verið heimsóttar, ljósmyndaðar innan sem utan og einn sálmur leikinn á orgelið inn á myndband. Þessar heimildir eru aðgengilegar á Ísmús. Eftir föngum verður síðan bætt við hvers konar ítarupplýsingum um kirkjurnar, sérstaklega varðandi sönglíf og tónlist. Hér má nefna ljósmyndir af eldri hljóðfærum og upplýsingum um þau, forsöngvara-, organista- og prestatal, upplýsingar um kóra og tengingar í áður birtar umfjallanir eftir því sem við á svo sem á Tímarit.is.

Stuðningur og styrkir

Fjöldi fólks hefur komið að verkefninu í gegn um árin og lagt því lið á ýmsa lund. Þó ekki séu allir hér nefndir eru eftirfarandi þeir helstu:

 • Martin Knakkergaard við háskólann í Álaborg í Danmörku kom að hugmyndavinnu á fyrstu stigum.
 • Dr. Gisela Attinger við háskólann í Ósló kom að verkefninu á fyrri stigum og skráði upplýsingar og texta um kaþólsk skinnhandrit sem er hennar sérsvið.
 • Forritararnir Hörður Þórðarson og Ólafur Pétursson hjá Lausn ehf. unnu um tíma mikið við verkefnið.
 • Sigurður Árni Svanbergsson hannaði nýtt útlit vefsins.
 • Rósa Þorsteinsdóttir hjá Stofnun Árna Magnússonar, umsjónarmaður þjóðfræðisafns stofnunarinnar, hefur tekið virkan þátt í þróun verkefnisins.
 • Hugi Þórðarson á skyldar sérstakar þakkir því hann hefur staðið lengi og þétt með verkefninu, m.a. endurhannað grunninn og forritað að stærstum hluta.
 • Gunnlaugur Snævarr hefur af miklum áhuga og elju unnið við að skrá presta í grunninn og tengja þá kirkjum sem þeir þjónuðu.

Fjárhagslega hefur Alþingi stutt Ísmús verkefnið mest allra. Frá upphafi hafa eftirtaldir einnig stutt verkefnið:

 • Biskupsskrifstofa
 • Félag íslenskra organista.
 • Kristnihátíðarsjóður
 • Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn
 • Menningarsjóður Búnaðarbankans
 • Menningarsjóður Sjóvá Almennra
 • Menningarsjóður Reykjavíkur
 • Menntamálaráðuneytið
 • Norræni Menningarsjóðurinn
 • Nýsköpunarsjóður Námsmanna
 • Stofnun Árna Magnússonar
 • Vefsýn hf.
 • Vísindasjóður
 • Þjóðhátíðarsjóður
 • Þjóðminjasafn Íslands
 • Þjóðskjalasafn Íslands

Íslandskortið sem notað er í bakgrunni vefsins er teiknað af Stamen Design.

Þegar Kópavogsbær stofnaði Tónlistarsafn Íslands í janúar 2009, í samvinnu við Menntamálaráðuneytið, tók safnið yfir gögn og verkefni af ýmsu tagi sem Músík og saga ehf. hafði unnið að í mörg ár þar að undan. Þar má nefna gögn eins og ljósmyndir, handrit, bækur og skjöl, Ísmús gagnagrunninn og vefsíðuna musik.is.

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 1.11.2019