SÁM 90/2235 EF

,

Eitt barna Guðmundar og Ólínu á Kirkjubóli hét Ólafur, skýr maður. Á unglingsárum hans sat hann öllum stundum uppi í fjöllum og klettum við það að velta grjóti. Frammi í dalnum er mikill og grösugur teigur sem heitir Krossavellir. Þar átti að vera huldufólksbyggð í klettunum. Margir sögðust hafa séð þar ljós á kvöldin og fleiri merki þess. Ólafur sat stundum heilu dagana og velti steinum fram af þessum klettum. Móðir hans og fleiri báðu hann að hætta þessari iðju, en ekkert gekk. Eitthvað á Ólaf að hafa dreymt um þetta. Þegar farið er að hýsa fé rétt um áramótin er komið að fjárhúsunum einn morguninn, þá eru dyr opnar og allt fé horfið. Allir voru vissir um að þeir hefðu lokað. Féð fannst frammi á dal og því var komið í hús. Tveimur nóttum síðar er veður mjög slæmt og þegar á að gefa fénu morguninn eftir eru dyrnar aftur opnar og féð horfið. Ólafur sagði þá að fólk skyldi ekkert vera hrætt um þetta en ef eitthvað vantaði af fénu þá væri það á hans ábyrgð að endurheimta það. Nú var beðið eftir að veður lægði og svo var farið að leita að fénu. Allt féð fannst nema kindurnar hans Ólafs. Eftir þetta bar ekki neitt á neinu. Haustið eftir var Ólafur heima við fjárgeymslu. Eitt kvöld í slæmu veðri er hann að smala frammi í dalnum. Ólafur kemur ekki strax heim en það þótti ekki undarlegt. Rétt innan við Kirkjuból er bærinn Ós, svona hálftímagangur á milli. Kindur bóndans þar gengu á sama svæði og Kirkjubólskindurnar og hann þurfti að ná í þær. Þegar hann kemur þar sem kallað er Brunnarnir finnur hann Ólaf meðvitundarlausan. Bóndinn fer með hann heim þar sem honum er hjúkrað eftir bestu getu. Ekkert sást á Ólafi að hann væri meiddur, samt fékkst hann ekki til að tala, vildi ekkert segja frá því sem gerst hafði. Síðan leggst Ólafur bara í rúmið og klæðir sig ekki og talar ekki við neinn. Hann vildi ekki borða nema allir færu úr baðstofunni. Móðir hans var sú eina sem mátti vera hjá honum eða færa honum eitthvað. Þannig liðu upp undir tuttugu ár sem að Ólafur lá alheill í rúminu. Þá fór allt í einu að brá af honum, til dæmis þegar gestir komu. Heimildarmaður man eftir að hafa komið þegar Ólafur lá enn í rúminu eftir tuttugu ár. Þá klæddi hann sig ekki og var með breidda sængina upp undir höfuð. Heimildarmaður heilsaði Ólafi þó alltaf með handabandi eins og hinum og alltaf tók Ólafur í hendi hans, hafði alltaf smá til að sjá þegar svona bar við. Eftir 19-20 ár reis hann upp úr rúminu og lifði eftir það í allmörg ár við góða heilsu og ekkert bar á neinu. Fyrst eftir að hann fékk þetta leitaði hann sér lækninga, fór alla leið suður til Reykjavíkur, það fannst aldrei neitt að honum en menn ráðlögðu honum að skipta um verustað. Það sást aldrei á honum að hann hefði verið eitthvað veikur. Þetta vildi fólk setja í samband við huldufólk á Krossavöllunum, það hefði hefnt sín svona á honum


Sækja hljóðskrá

Spila næstu upptöku þegar þessari lýkur

SÁM 90/2235 EF
E 70/20
Ekki skráð
Sagnir
Huldufólksbyggðir og hefndir huldufólks
Ekki skráð
Ekki skráð
Ekki skráð
Ekki skráð
Jón G. Jónsson
Hallfreður Örn Eiríksson
Ekki skráð
13.03.1970
Hljóðrit Hallfreðar Arnar Eiríkssonar
Engar athugasemdir

Uppfært 27.02.2017